132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Munnleg skýrsla utanríkisráðherra um varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna.

[12:55]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið það tækifæri fram hjá mér fara að fá að nota ræðutíma minn til fulls og kem því hér upp öðru sinni. Mig langaði aðeins til að útskýra nánar hvað ég átti við þegar ég talaði í fyrri ræðu minni um að við ættum að leita til Evrópuþjóða NATO. Að sjálfsögðu ímynda ég mér ekki að slíkt komi alfarið í staðinn fyrir það starf sem Bandaríkjamenn hafa innt af hendi, eða kannski inntu frekar af hendi því að segja má að þeir séu í raun farnir og hafi farið fyrir allmörgum árum.

Bandaríkjamenn hafa að sjálfsögðu haft aðrar áherslur en Evrópuþjóðir mundu hugsanlega hafa í svona samstarfi. Það sem ég á við er að við reynum að leita leiða með viðræðum við yfirstjórn NATO, við Evrópuþjóðir innan NATO um það hvort ekki finnist einhverjir fletir á samstarfi varðandi viðbúnað, öryggisgæslu, eftirlit og björgunarstörf.

Núna í hádeginu bárust fréttir af því að Norðmenn eru uggandi vegna þeirra frétta sem nú berast frá Íslandi. Yfirstjórn norska hersins er uggandi út af þessu. Brottför Bandaríkjamanna skapar nefnilega algerlega nýja stöðu í öryggismálum á Norður-Atlantshafi og það er staðreynd sem við getum ekki litið fram hjá, hvorki við né heldur nágrannar okkar í Evrópu, til að mynda á Norðurlöndunum en líka Bretlandi, Skotlandi, Þýskalandi, Hollandi. Það er bara þannig.

Norðmenn hafa t.d. lýst því yfir nú þegar að bara það að þyrlusveit Bandaríkjamanna, sem hefur mjög langdrægar vélar með eldsneytisvélar sér til aðstoðar, hverfur héðan núna gerir það að verkum að mjög erfitt verður að halda úti fullnægjandi björgunarþjónustu í hafinu norður af Íslandi. Norðmenn hafa áhyggjur af því. Vegna hvers? Jú, vegna þess að skip þeirra eru oft á ferli á þeim slóðum, til að mynda í Íshafinu umhverfis Jan Mayen og jafnvel enn norðar. Við höfum líka hafsvæði á milli Íslands og Noregs. Hér var áðan talað um Færeyjar. Það hefur verið bent á það að Danir halda úti öflugri gæslu við Grænland, ekki bara við Austur-Grænland heldur líka við Vestur-Grænland. Gætum við Íslendingar ekki, eins og hæstv. dómsmálaráðherra benti á, einmitt náð einhverjum samningi við Dani um þetta starf?

Nú er verið að tala um að smíða þurfi nýtt skip fyrir Landhelgisgæsluna. Ég held að þessar fréttir hér geri það að verkum að við þurfum að íhuga hvort við þurfum ekki að smíða fleiri skip. Við þurfum fleiri þyrlur. Gæti ekki hugsast að einmitt nágrannaþjóðir okkar væru reiðubúnar til að taka þátt í þessum kostnaði, taka þátt í því að greiða kostnaðinn af rekstri þessara skipa og þessa flugvélakosts en þetta starf yrði síðan unnið af okkur Íslendingum? Í hádeginu bárust líka fréttir af því að allir íslenskir starfsmenn varnarliðsins hætti störfum í haust, fleiri hundruð manns á Suðurnesjum sem verða atvinnulaus.

Virðulegi forseti. Hérna þurfum við að taka skjótar og djarfar ákvarðanir. Því miður, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, höfum við glutrað niður allt of miklu af dýrmætum tíma því að allir sem vildu sjá það vissu og sáu hvert stefndi með viðveru Bandaríkjamanna hér á Íslandi. Ég held að ríkisstjórninni beri hreinlega skylda til þess að hafa strax samband við yfirstjórn NATO og notfæra sér sambönd sín við æðstu ráðamenn í nágrannalöndum okkar ekki seinna en strax til að leita lausna á þeim bráða vanda og ég vil segja þeirri hættu sem nú steðjar að í öryggismálum, ekki bara okkar heldur Vestur-Evrópu. Þetta er hlutverkið og það er þetta sem við ættum að beina sjónum að núna, hvernig við getum unnið úr þessari vandasömu stöðu sem skyndilega er komin upp. Þetta þurfti ekki að koma okkur svo mjög á óvart en því miður fæ ég ekki annað séð og heyrt á orðum ráðherra hér í dag en að þeir séu nánast ráðþrota í stöðunni. Þeir hafa valið þá leið að binda trúss sitt um of við Bandaríkjamenn. Það er í sjálfu sér mjög slæmur hlutur en eins og ég segi megum við ekki láta hendur fallast, við megum ekki leggja árar í bát. Þetta gefur okkur ákveðin sóknarfæri, ákveðna möguleika og við eigum að einbeita okkur að því að reyna að finna lausnir á þessu núna. Tíminn líður hratt og við megum ekki lengur missa neinn tíma í þessu máli.