135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

stúdentar frá Menntaskólanum Hraðbraut.

467. mál
[12:49]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir fyrirspurnina. Vegna inngangsorða hv. þingmanns um styttingu náms til stúdentsprófs þá vil ég geta þess að ég er enn þeirrar skoðunar að við getum notað og nýtt tímann betur innan íslensks skólakerfis. Ég hef margoft dregið fram þá staðreynd að við notum hátt í 12.000 klukkustundir til stúdentsprófs miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við. Þar má nefna Dani sem nota ríflega 10.000 klukkustundir, Svía milli 9.000 og 10.000 og síðan Finna sem við alla jafnan viljum bera okkur saman við en þeir eru með tæplega 9.000 eða 8.800 klukkustundir til stúdentsprófs. Við getum því nýtt tímann betur og við eigum að gera það.

Það má segja um aðferðafræðina sem lagt var upp með á sínum tíma að hún var kannski ekki heppileg að því leytinu til að þegar maður lítur yfir farinn veg þá var það allt of mikil miðstýring í þá átt að segja að allir ættu að stytta nám til stúdentsprófs.

Það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu, frumvarp til framhaldsskólalaga, veitir skólunum hins vegar miklu meira frelsi og fleiri tækifæri til að auka á fjölbreytni til að efla iðn- og starfsnám og til þess m.a. að stytta námstímann ef nemendur kjósa svo. Þetta byggist allt á því að nemendur annars vegar hafi val og hins vegar að skólarnir móti nám og námsframboð eftir því sem atvinnulífið og háskólarnir kjósa og leiðbeini þeim. Það er því mun minni miðstýring sem nú er stefnt að. Við segjum einfaldlega að við ætlum að hafa kjarnann íslensku, ensku og stærðfræði og síðan mun hver skóli móta nám og námsframboð við hæfi þeirra nemenda sem kjósa skólavist í þeirra skóla. Ég er sannfærð um það að eitt af leiðarljósum þeirra breytinga sem mun leiða til þess að við sjáum hér öflugra iðn- og starfsnám, sem við höfum kallað eftir ár eftir ár. Við eigum eftir að sjá styttra nám til stúdentsprófs en við eigum líka eftir að sjá áfram hér þriggja, fjögurra eða jafnvel fimm ára skóla. Svigrúm hraðbrautarinnar innan þessa kerfis verður áfram til staðar.

Þá er ég komin að spurningum hv. þingmanns. Ég vil geta þess og taka undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að benda einmitt á þennan möguleika sem hefur verið í kerfinu en þó allt of lítið nýttur, það er að nema við Menntaskólann Hraðbraut sem er tveggja ára nám.

1. Hversu stórt hlutfall nemenda í Menntaskólanum Hraðbraut útskrifaðist 18 ára eða yngri með stúdentspróf árin 2005, 2006 og 2007?

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands útskrifuðust 55% nemenda eða 23 nemendur með stúdentspróf árið 2005, 18 ára og yngri. Árið 2006 útskrifuðust 48% eða 21 nemandi með stúdentspróf, 18 ára og yngri. Árið 2007 útskrifuðust 44% eða 24 nemendur með stúdentspróf frá skólanum, 18 ára eða yngri.

2. Hvert var hlutfall kvenna af stúdentum frá skólanum á þessum árum?

Árið 2005 var hlutfall kvenna 46% af stúdentum 18 ára og yngri. Árið 2006 52% 18 ára og yngri og árið 2007 var hlutfall kvenna 18 ára og yngri 45%.

3. Á hvaða aldri útskrifast nemendur skólans almennt með stúdentspróf og hvert hefur hlutfall kvenna verið?

Algengast er að nemendur útskrifist með stúdentspróf frá skólanum 18 ára og yngri. Þeir sem eldri eru dreifast nokkuð jafnt á árin frá 20–30 ára og nokkrir eru eldri en þrítugir þegar þeir útskrifast. Árið 2005 voru konur 67% af stúdentum skólans, árið 2006 61% og árið 2007 74%. Af þessu tilefni er rétt að geta þess að það er greinilegt að konur — og enn þá eru fleiri konur en karlar sem ekki hafa framhaldspróf eða stúdentspróf — hafa nýtt sér þennan möguleika sem Menntaskólinn Hraðbraut býður upp á.