135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

tónlistarnám á framhaldsskólastigi.

502. mál
[13:06]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við höfum oft rætt um þessi mál í þingsal og mér þykir hæstv. menntamálaráðherra fremur loðinn í svörum sínum eða kannski ósamkvæmur sjálfum sér. Síðast þegar við ræddum þetta saman var það vegna úrskurðar frá umboðsmanni Alþingis sem taldi að framhaldsnám í tónlist og sérstaklega þær einingar sem eru þreyttar til stúdentsprófs ættu að vera á kostnað ríkisins af því að framhaldsskólastigið, eðli málsins samkvæmt, heyrði undir ríkið. Þá sagði hæstv. menntamálaráðherra að hún væri ekki sammála áliti umboðsmanns en nú segir hún að það sé sitt álit að framhaldsstig í tónlist eigi að heyra undir ríkið. Ég tel að þetta þurfi að ræða betur og greiða úr þessum málum.

Tvennt er afar mikilvægt. Það verður að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir, það verður að tryggja að ríkið taki að sér framhaldsstigið í tónlist, við vinstri græn erum fylgjandi því. Og það verður að tryggja að landið verði eitt umdæmi þegar um tónlistarnám er að ræða.