135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

áskoranir frá Bandalagi íslenskra listamanna.

509. mál
[13:22]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mótmæli því harðlega að hér ríki hentistefna varðandi menningarmál í landinu fyrst ekki er til einhvert plagg sem segir: Stefnt er að eflingu og byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss. Stefnt er að því að efla og styrkja starfslaun listamanna. Stefnt er að því að fjölga menningarkynningum í útlöndum. Að þessu öllu er unnið. Ég undirstrika að menningarstefna okkar kemur að meginhluta til fram í fjárlögum, m.a. í þeim menningarsamningum sem við höfum gert á undanförnum árum, menningarkynningu, öflugu listalífi, m.a. í tónlistarlífinu. Við erum að byggja, eins og ég gat um, tónlistar- og ráðstefnuhús og þannig má lengi telja.

Ef það er einhver friðþæging fyrir menn að við mótum eitthvað sem kallast menningarstefna þá hef ég sagt og ég sé reiðubúin til þess. Ég er tilbúin að skoða málið frekar ef það yrði til þess að fólk yrði ánægðara með ástandið, að við drögum fram þá áhersluþætti sem ég hef sett fram.

Ég er hins vegar ekki sannfærð um að þeir áhersluþættir séu samhljóða áherslum Bandalags íslenskra listamanna. Það þarf ekkert endilega að vera. Svo menn hafi það á hreinu þá er menningarstefna ríkisins ekkert endilega bara plagg frá skrifstofu Bandalags íslenskra listamanna heldur miklu frekar samvinna á milli hinna ýmsu aðila, ekki eingöngu listamanna heldur og ýmissa annarra sem hafa mikilla hagsmuna að gæta þegar kemur að menningu og listum. (KolH: Ályktunin fjallar um það.)