136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða og starfsumhverfi íslenskrar verslunar.

[14:43]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. Árna M. Mathiesens um flutningsjöfnun skal ég í anda hreinskilinnar og opinnar ríkisstjórnar viðurkenna að mér hefur ekki unnist tími til á þeim undanförnum 23 dögum sem ég hef verið í þessu embætti að lesa skýrsluna eða setja mig inn í hugmyndir um flutningsjöfnun. En ég mun að sjálfsögðu gera það fyrst þessi ábending hefur komið fram og þakka ég hana.

Vegna fyrirspurnar hv. þm. Helgu Sigrúnar Harðardóttur um sýn mína á samkeppni í verslun í framtíðinni vil ég taka fram að ég tel að við höfum um margt búið við mjög óeðlilega skipan mála hvað varðar samkeppni í verslun og reyndar fleiri greinum á undanförnum árum. Þannig að oft hafa mjög mörg fyrirtæki eða verslanakeðjur starfað undir hatti fárra eignarhaldsfélaga sem nú standa mörg hver mjög illa.

Ég tel að þetta skapi ákveðin sóknarfæri í samkeppnismálum þannig að þegar kemur að því að greiða úr málum þessara eignarhaldsfélaga verði þau ekki endurreist í fyrri mynd heldur frekar seld í smærri einingum sem vonandi eru þá rekstrarhæfar þannig að upp rísi verslun sem verði með fleiri og smærri fyrirtækjum og þar af leiðandi verði meira svigrúm fyrir samkeppni. Það held ég að verði neytendum til góðs og auk þess sé það sennilega besta leiðin fyrir kröfuhafana til að koma eignunum í verð. Enda sennilega erfitt að fá kaupendur að mjög stórum einingum um þessar mundir.