138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[16:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er nú löngu vitað að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir er alveg á móti kynjakvóta, það hefur komið fram hér í þingsölum. (REÁ: Gott.) En ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að stjórnarandstaðan gegnir veigamiklu hlutverki við að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, (Gripið fram í.) við höfum líka verið í heilmikilli umræðu hér í þinginu um að það þurfi að styrkja stöðu Alþingis og að það þurfi að greina betur á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þá er auðvitað mikilvægt að þingmenn sem koma úr stjórnarflokkunum hafi sitt tækifæri til að koma á framfæri fyrirspurnum til ráðherra. Það er ekkert endilega þannig að þær fyrirspurnir geti ekki verið óþægilegar, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar rakti hér ágætlega áðan um fyrirspurnir sem hann tók dæmi um. Mér finnst því að við verðum nú að hafa þetta í huga.

Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni að það sé ástæða til þess að endurskoða fyrirkomulag þessara fyrirspurnatíma t.d. þannig að fleiri geti komist að með stuttar athugasemdir (Forseti hringir.) í fyrirspurnum sem beint er til tiltekins ráðherra frá tilteknum þingmanni eins og í almennum fyrirspurnatímum á miðvikudögum. Þetta mætti alveg skoða og hugsanlega að lengja þann tíma sem fer í óundirbúnar fyrirspurnir.