138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæð viðbrögð við drögum að hugsanlegri tillögu. Ég hlakka til að eiga nánari samráð og samskipti við þingmanninn um þetta. Mig langar líka að vekja athygli á öðrum punkti sem þingmaðurinn kom inn á í ræðu sinni, sem er mjög mikilvægur, og það er þessi skörun við vinnuna sem fram fer hjá Fasteignamati ríkisins og hjá sýslumannsembættunum á grundvelli fasteignaskrár ríkisins. Ég held að það sé mjög mikilvægt að nýta tækifærið til að fara yfir þetta. Ég hef sjálf unnið á báðum vígstöðvum, hjá sveitarfélagi, hjá Fasteignamatinu, sem svo hét þá, og eins í þinglýsingum. Það er algjörlega ljóst að þarna er mikil skörun og ekki alltaf samræmd. Á þessu er nauðsynlegt að taka. Ég tel, fyrst verið er að fara hér í umfangsmikla vinnu við að skoða skipulagslögin, að víkja eigi aðeins að þessu sjónarmiði og skoða með hvaða hætti væri hægt að bregðast við og laga þetta umhverfi.