138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

mannvirki.

426. mál
[18:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að fara í gegnum frumvörpin. Eins og fram kom í umræðunni um skipulagsmál er málasviðið víðfeðmt en leiðir sjálfsagt hvað af öðru. Það er búið að skipta skipulags- og byggingarlögunum upp í tvennt.

Það er tvennt sem mig langar að ræða við hæstv. ráðherra. Annars vegar: Hefur verið haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um kostnað við bæði breytingu á lögum um brunavarnir og eins um skipulagslögin? Ég sá það ekki í sambandi við mannvirkjahlutann og spyr af hverju svo hafi ekki verið. Ég hef kannski bara ekki séð það. Það er auðvitað gleðilegt að ráðuneytið skuli vera það en eins og oft hefur komið fram áður eru fleiri en einn opinber aðili í þessu landi og það er óþolandi þegar Alþingi setur lög að kostnaðurinn verði til hjá fleirum en ríkinu. Þess vegna er þetta fyrirspurn mín: Af hverju á það ekki við þarna?

Hin fyrirspurnin snertir hvort ekki hafi verið ígrundað meira — ég veit að það var talsvert rætt á fyrri stigum — að þetta inngrip sem Byggingarstofnun hefur í verkferli byggingarfulltrúa gerir það að verkum að byggingarfulltrúar hafa í raun og veru tvo hatta, annars vegar sveitarstjórnina sem ræður þá, borgar launin og hefur eftirlitið að hluta til og að stóru leyti en svo virðist Byggingarstofnun líka að eiga að hafa yfireftirlit og geta jafnvel gripið inn í, samkvæmt fyrra frumvarpi. Ég hef ekki alveg séð hvort þetta sé fullhugsað og hvort menn sjái ekki einhverja vankanta á því að byggingarfulltrúarnir séu annars vegar með tvo herra og hins vegar að Byggingarstofnun hafi það vald að geta gripið inn í valdsvið sveitarfélagsins og byggingarfulltrúans og hreinlega tekið fram fyrir hendurnar á honum. Mér finnst spurning hvort þarna sé ekki of langt gengið.