138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

mannvirki.

426. mál
[18:59]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir spurninguna. Nú þegar er hafin endurskoðun á byggingarreglugerð og hlutverk nefndarinnar er að semja byggingarreglugerð með hliðsjón af þessu nýja fyrirliggjandi frumvarpi. Í erindisbréfi nefndarinnar er m.a. tekið fram að nefndinni sé sérstaklega ætlað að huga að sjónarmiðum er varða aðgengismál með það að markmiði að uppfylla ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er því sérstaklega hér inni en þar fyrir utan tölum við um að sérstaklega sé hugað að byggingum sem ætlaðar eru börnum og ungmennum, svo sem skólum og íþróttamannvirkjum, með það að markmiði að skapa örugg skilyrði fyrir börn til lífs og þroska samanber barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, m.a. hljóðvist í skólum með tilliti til nýrra kennsluhátta, vistvænni byggð með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi o.s.frv.

Ég tel því, virðulegi forseti, að þessari ágætu athugasemd hv. þingmanns sé tryggður farvegur í núverandi endurskoðun á byggingarreglugerð. Ég vænti þess að reglugerðin liggi fyrir 1. febrúar 2011 en verklokum í fyrsta áfanga ljúki 1. maí 2010. Gert er ráð fyrir að nefndin skili áfangaskýrslu og verði þá búin að kortleggja ráðgjafarhópa, fjölda þeirra og skipan enda er, eins og þingmaðurinn nefndi áðan, um gríðarlega fjölbreytta og mikla yfirferð að ræða á þessum geira og mikilvægt að þar sé rýnt mjög vel í hvert horn.