138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

mannvirki.

426. mál
[19:20]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil hafa nokkur orð um það frumvarp sem hér liggur fyrir til 1. umr. Ég tel að hér sé eins og á við um hið fyrra mál sem við höfum rætt, frumvarp til skipulagslaga, um afar brýnt, tímabært og mikilvægt mál að ræða. Í raun skýrir það sig sjálft í markmiðsgrein laganna því að markmið laganna er, með leyfi forseta, að „vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt“. Í þessu felst kannski á mannamáli að byggja þarf almennileg hús svo hægt sé að búa í þeim og að þau standist ekki bara hinar faglegu kröfur eða útlitskröfur heldur líka kröfurnar sem landið og náttúran setur okkur. Við höfum svo sem mörg dæmi um það í öðrum löndum hvernig fer ef menn gera það ekki.

Síðan er verið að stuðla að endingu og hagkvæmni að sjálfsögðu og sjálfbærri þróun sem gengur eins og grænn þráður í gegnum bæði þessi frumvörp eins og vera ber og einnig að stuðla að tæknilegum framförum og nýjungum í byggingariðnaði og góðri orkunýtingu. Það er ekki síður mikilvægt, tel ég. Síðast en ekki síst, hæstv. forseti, á að stuðla að aðgengi fyrir alla. Ég tel afar brýnt að það sé í markmiðum þessara laga algjörlega ótvírætt og á einum stað í kerfinu eins og sagt er þannig að loks verði hægt að taka á því stóra máli sem aðgengi fyrir alla er og á að vera. Margar úrbætur þurfa þar að fara fram en það er betra að hafa þær á einum stað eins og hér er lagt til.

Ég ætla ekki að fara inn í umræðuna um Byggingarstofnun sem slíka en tek undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að við skoðum það örugglega mjög vel í nefndinni. Auðvitað þarf á þessum tímum að fara vel með almannafé en það þarf líka að gæta vel að almannahagsmunum og það er m.a. gert með sterkum, faglegum og góðum ríkisstofnunum sem gæta hagsmuna almennings og gæta jafnræðis, samræmingar og faglegs eftirlits alls staðar á landinu, í öllum sveitarfélögum alls staðar á landinu þannig að það skipti ekki máli hvar við búum, við fáum sömu þjónustu að þessu leyti.

Ég ætla enn fremur að fá að segja, hæstv. forseti, að með þessum hætti þarf líka að vernda almenning gegn — ég veit ekki hvort ég á að segja spilltum stjórnmálamönnum eða kannski stjórnmálamönnum sem verða fyrir miklum þrýstingi frá sérhagsmunaaðilum. Það getur oft verið erfitt að standast þann þrýsting og þá ber okkur að hafa þannig stofnanir og þannig löggjöf í landinu að það sé ljóst að almenningur greiði ekki kostnaðinn af því ef menn láta undan án þess að ég fari að nefna einhver dæmi um slíkt.

Það þurfa auðvitað að vera skýr mörk á milli skipulagslaga og mannvirkjalaga eins og hér hefur verið bent á en ég vil sérstaklega við þessa 1. umr. ræða um hlutverk Byggingarstofnunar hvernig sem hún verður, hvar sem hún verður staðsett og hvernig sem hún mun líta út á endanum. Hér höfum við tillögu hæstv. ráðherra í frumvarpi en það vill þannig til að við erum ekki mjög langt á veg komin hér á landi í t.d. rannsóknum í byggingariðnaði eða á byggingum og við þurfum að stuðla betur að þeim. Í 12. lið 5. gr. frumvarpsins segir að það beri að gera, og rannsóknirnar eru auðvitað hin hliðin á gagnasöfnuninni. Við ræddum áðan í umræðu um skipulagsfrumvarpið að gögnin þyrftu helst að vera á einum stað. Kannski er hér komin stofnunin sem getur haldið utan um öll gögnin, upplýsingar um mannvirki, Landskrá fasteigna o.s.frv. Við skulum bara íhuga það. Ég held að við ættum ekki að útiloka neitt í þeim efnum.

Með því að hafa allar upplýsingar á einum stað og aðgengilegar fyrir alla, fólk, sveitarfélög og fyrirtæki, og með því að stunda rannsóknir sem beinast að íslenskum aðstæðum sem eru um margt sérstakar eins og allir vita ætti þessi stofnun betur að geta sinnt upplýsinga- og leiðbeiningarhlutverki sínu, m.a. með því að gefa út byggingarreglugerðir sem eru eins og handbækur eins og gert er í nágrannalöndum okkar og full þörf er á með því að láta ráðuneytum í té upplýsingar sem gera þeim fært að skrifa reglugerðir um vistvæna hönnunarstaðla á Íslandi sem henta okkar aðstæðum. Það eru alls konar svona verkefni sem á að vinna í nýrri Byggingarstofnun, mikilvæg verkefni og tímabær vil ég segja þó að ég ætli um leið ekki að gera lítið úr því að auðvitað verðum við að horfa í hverja einustu krónu í þessu efni, munum gera það og munum auðvitað gera það í fjárlagavinnu þessa árs fyrir það næsta.

Hér hafa hv. þingmenn bent á ýmis atriði sem sem okkur ber að sjálfsögðu að skoða og við munum skoða í umhverfisnefnd, t.d. um gjaldtöku á líftíma mannvirkis og annað slíkt og líka um það sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði um útfærslu 60. gr. frumvarpsins því að það skiptir auðvitað máli að hún sé í anda markmiðsgreinar laganna og líka með innleiðingu reglugerða í gegnum EES-samninginn. Við þurfum að hafa allan varann á í því þótt stundum séu þær það tæknilegar, a.m.k. á sumum sviðum, að það sé kannski einfaldasti kosturinn að gera það þannig. Við munum að sjálfsögðu sinna því í umhverfisnefnd eins og öðru, einnig þeim spurningum sem hér voru bornar fram um hlutverk Byggingarstofnunar sem eftirlits- og stjórnsýslustofnunar. Það þarf að skoða það og sjá hver reynslan af því er hjá öðrum ríkisstofnunum. Ef ég hef ekki misskilið hlutverk Vegagerðar ríkisins er hún bæði eftirlits- og stjórnsýslustofnun, það kann að vera rangur misskilningur hjá mér eins og þingmaðurinn orðaði það áðan en það er ekki eins og það sé óþekkt fyrirbæri hér á landi, þótt ég mæli alls ekki með því sérstaklega, en með því að aðskilja hlutverkin erum við kannski líka að auka kostnaðinn. Það er kannski það sem menn hafa verið að hugsa.

En allt verður þetta skoðað nákvæmlega í umhverfisnefnd. Svo ég ítreki það enn og aftur munum við vinna þetta eins vel og kostur er. Það verður ekkert slugs og mér heyrist á öllu að hv. þingmenn í umhverfisnefnd séu tilbúnir til að vinna þetta vel og lengi og fram á vorið. Vonandi náum við að afgreiða þetta á þessu þingi. (Gripið fram í: Taka bara sumarið í þetta.)