139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

staða rannsóknar embættis sérstaks saksóknara.

503. mál
[16:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Hálft þriðja ár er liðið frá því að Ísland og Íslendingar urðu fyrir efnahagshruni og hafa menn rakið ástæður þess í ræðu og riti á undanliðnum missirum og þarf ekki að fjölyrða um þær orsakir, hvað þá afleiðingarnar.

Fyrir þá þingmenn sem fara mikið um landið er ekki annað að heyra á þjóðinni en að mikillar gremju gæti í garð hinna svokölluðu útrásarvíkinga, þeirra manna sem léku íslenskt bankakerfi hvað verst. Eru þær sögur sem enn eru að tínast á blað með hreinum ólíkindum. Verður ekki frekar fjölyrt um það enda hafa fjölmiðlar fjallað um það mál með mjög ítarlegum og vandvirkum hætti að því er mér hefur sýnst.

Það er hins vegar mikilvægt fyrir almenning að vita það á hverjum tíma hvernig rannsókn á hugsanlegum glæpum sem tengjast efnahagshruninu miðar. Hér ber að hafa í huga að þótt almenningur og jafnvel líka sá sem hér stendur sé mjög óþolinmóður og vilji fá þá, sem léku íslensk heimili og íslenskan efnahag og íslensk fyrirtæki hvað verst, á bak við lás og slá sannist klárlega á þá lögbrot, þá ber að fara fram í þessu máli með vandvirkni. Því er kannski betra að verja lengri tíma til þessarar rannsóknar en styttri ef það verður til þess að lyktir þessa máls verði með sómasamlegum hætti. Það getur líka verið hættulegt að flýta sér um of við rannsóknina og ber að hafa í huga og er ágætt fyrir almenning að vita af því að mörg stór dómsmál á síðustu árum hafa tapast vegna þess að menn hafa kannski verið að flýta sér um of.

Frú forseti. Ég spyr hæstv. innanríkisráðherra sem fer með þann mikilvæga málaflokk nokkurra spurninga af þessu tilefni:

1. Hver er staðan á rannsókn embættis sérstaks saksóknara á grun um refsiverða háttsemi í tengslum við bankahrunið? Hve margir hafa nú stöðu grunaðra? Hve margir hafa verið yfirheyrðir?

2. Er hætt við að mál einhverra manna sem tengjast rannsóknir fyrnist áður en rannsókn lýkur? Hvenær er þess að vænta að rannsókninni ljúki?

Þær spurningar legg ég nú fram fyrir hæstv. innanríkisráðherra og segi það jafnframt að ég tel mjög mikilvægt að ráðherra upplýsi almenning og friði hann e.t.v. að einhverju leyti með þeim upplýsingum sem liggja fyrir og geta verið opinberar á þessu stigi.