139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

staða rannsóknar embættis sérstaks saksóknara.

503. mál
[16:26]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Innanríkisráðuneytið leitaði umsagnar hjá embætti sérstaks saksóknara vegna fyrirspurnarinnar og eru svör mín byggð á upplýsingum frá embættinu.

Fyrst er spurt: Hver er staðan á rannsókn embættis sérstaks saksóknara á grun um refsiverða háttsemi í tengslum við bankahrunið?

Embætti sérstaks saksóknara tók til starfa 1. febrúar 2009 og hefur nú starfa í rúmlega tvö ár. Í upphafi voru starfsmenn fjórir ásamt lögfræðilegum ráðgjafa í hlutastarfi og fjölgaði starfsmönnum embættisins smám saman í samræmi við aukinn fjölda mála, auk þess sem leitað var til innlendra og erlendra sérfræðinga. Að meðtöldum sérstökum saksóknara starfa alls fjórir saksóknarar við embættið en aðrir starfsmenn verða um næstu mánaðamót alls 72 talsins auk sex sérfræðinga sem starfa í tilteknum verkefnum. Heildarfjöldi starfsmanna og sérfræðinga verður því 78 manns um næstu mánaðamót. Lögð hefur verið áhersla á að vanda til verka við val á starfsmönnum til starfa hjá embættinu. Verkefni embættisins eru í fyrsta lagi mál skráð í málaskrá lögreglu, LÖKE, þ.e. lögreglurannsóknir á sakamálum og lögregluverkefni og þar með talið aðstoð við erlenda löggæsluaðila.

Alls hafa verið til meðferðar 111 slík mál hjá embættinu. Mál embættisins skráð í LÖKE eru 98 talsins en auk þess hafa embættinu verið send 13 mál sem upphaflega eru skráð hjá öðrum embættum, flest frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Af þeim hefur verið ákært í tveimur málum, samtals fjórir einstaklingar ákærðir, rannsókn verið hætt eða kæru vísað frá í 28 málum, eitt mál hefur verið sent til meðferðar hjá öðru embætti og 80 mál eru nú til meðferðar hjá embættinu.

Í öðru lagi er um að ræða stjórnsýsluverkefni sem hýst eru í sérstökum gagnagrunni, GoPro, sem heldur utan um skráningu þeirra og feril. Stjórnsýsluverkefni skráð í GoPro eru nú orðin alls 1.340 talsins. Málafjöldi embættisins skiptist þannig að 58 eru skráð á árinu 2009, 29 á árinu 2010 og 11 það sem af er árinu 2011, eða alls 98 mál, eins og áður sagði. Flest aðsendu málin frá öðrum embættum bárust seinni hluta ársins 2010. Þau mál sem eru í rannsókn eru á misjöfnu stigi, sum lengra komin á meðan önnur eru komin skammt á veg.

Rannsóknir flestra mála embættisins eru tímafrekar, útheimta verulega gagnaöflun, auk þess sem ráðast þarf í viðamiklar rannsóknaraðgerðir vegna þeirra. Rafræn gögn eru stór hluti þeirra gagna sem fara þarf yfir, þar með talin tölvupóstsgögn, en auk þess er verulegt gagnamagn á pappírsformi. Skýrslutökur þarf að undirbúa af kostgæfni og m.a. þarf að draga fram þau rannsóknargögn sem bera á undir skýrslugjafa.

Í öðru lagi er spurt: Hve margir hafi nú stöðu grunaðra?

Svarið er á þessa leið: 216 einstaklingar hafa réttarstöðu sakbornings.

Í þriðja lagi er spurt: Hve margir hafa verið yfirheyrðir?

Svarið er á þessa leið: Heildarfjöldi einstaklinga, sakborningar og vitni í öllum málum, er 471. Það skal tekið fram að einstaklingar koma stundum oftar en einu sinni til yfirheyrslu og er heildarfjöldi yfirheyrslna í öllum málum 600.