139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

varastöð ríkislögreglustjóra á Akureyri.

504. mál
[16:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Enn á ég orðastað við hæstv. innanríkisráðherra. Nú er komið að öryggismálum landsins.

Ég spyr hæstv. ráðherra um hvað líði stofnun varastöðvar ríkislögreglustjóra á Akureyri. Þessi spurning er sett fram að gefnu tilefni því að samkvæmt lögum nr. 40/2008 er kveðið á um að fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, svokallaða varastöð, beri að reka á Akureyri. Þessi lög voru sett vegna þess að ekki er viturlegt að hafa öll eggin í þessum efnum, ef svo má segja, í sömu körfunni. Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, almannavarnir og aðrar viðbragðsstöðvar eru í sameiginlegri stjórnstöð í Skógarhlíð í Reykjavík, eins og menn þekkja, en Reykjavík er á áhættusvæði þegar kemur að náttúruhamförum af ýmsum toga, jafnt eldgosum og öðrum jarðhræringum.

Þetta mál var lagt fram fyrir örfáum árum með þeim hætti að stofna átti varastöð ríkislögreglustjóra á Akureyri og reyndar gott betur. Hafist var handa við að koma henni á laggirnar en lítið varð hins vegar úr fullkomnum efndum. Eftir því sem sá sem hér stendur veit best var aðstöðunni að einhverju leyti komið á fót en mannskapinn vantar enn þá.

Ég legg þetta mál ekki síst fram til umhugsunar vegna þess að hér á landi getur margt gerst í iðrum jarðar eins og við þekkjum sem hér erum og eins allir hinir hringinn í kringum landið. Við búum í landi þar sem alls konar ógnir geta sett líf og starfsemi í hættu. Því tel ég afar brýnt að þessari varastöð ríkislögreglustjóra verði komið á fót á Akureyri eins og lög sem samþykkt voru árið 2008 kveða á um. Ég spyr hæstv. innanríkisráðherra hvort ekki eigi að fara að lögum í þessu efni.