140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í upphafi var ég hérna með eina 10–12 punkta og ég held að ég hafi komist í punkt 7 þannig að nokkrar virkjanir í Suðurkjördæmi voru einmitt ótaldar sem og reyndar annars staðar á landinu. Hagavatnsvirkjun er ein þeirra og það er rétt hjá hv. þingmanni að ég var 1. flutningsmaður að þingsályktunartillögu um að færa Hagavatnsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk nú þegar. Við vorum búin að bíða í þinginu eftir niðurstöðu rammaáætlunar frá ríkisstjórninni og mér fannst þessi bið orðin óþolandi, málið tilbúið og eins og hv. þingmaður benti á eru allar umsagnir heimaaðila mjög jákvæðar.

Þegar ég óskaði hins vegar eftir því að fleiri þingmenn kæmu á málið og sendi á ríkisstjórnarflokkana liðu ekki nema tveir eða þrír klukkutímar áður en fyrsta andsvarið birtist í fjölmiðlum landsins hjá þeim sem eru á móti öllum virkjunum. Það fór í gegnum Ferðafélag Íslands í það skiptið og ég varð dálítið undrandi á þeirri umsögn þar sem það taldi að þetta mundi hafa áhrif á vatnasvæðið á Hveravöllum og Hrunamannaafrétti og ég veit ekki hvað og hvað. Nú veit ég svo sem ekki hvort einhver blaðamaðurinn hefur ekki tekið nægilega vel eftir en þetta vakti furðu margra heimamanna. Hagavatnsvirkjun er einmitt meðal verkefna sem ég tel mjög skynsamlegt að skoða að setja í nýtingarflokk og ef ekki í nýtingarflokk, þá þennan nýtingarflokk í bið sem ég nefndi áðan. Ef það þarf að klára einhverjar frekari rannsóknir er möguleiki að fá fjármagn í það til að klára.

Aðrar slíkar virkjanir, vatnsaflsvirkjanir, eru virkjunarkostir eins og eru í Skaftárhreppi og eru klárlega þess eðlis, t.d. Hverfisfljót, Hólmsá, hugsanlega Búlandsvirkjun sem er meira umdeild. Það má skoða gaumgæfilega hvort hægt sé að fá fjármagn til þess af því að það er dýrt að halda úti leyfunum í biðflokki (Forseti hringir.) og hafa ekki hugmynd um hvort þær verði nokkurn tíma teknar úr þeim flokki.