140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:28]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta mál fer til fjárlaganefndar enda mælt fyrir því af hálfu fjármálaráðherra en mér finnst rétt og eðlilegt að umhverfis- og samgöngunefnd fjalli áfram um það jafnvel þótt fram hafi komið, meira að segja opinberlega, að sumum þyki algjör óþarfi að samgöngunefnd hafi yfir höfuð einhverja skoðun á þessu stóra samgöngumáli.

Það sem er alvarlegt íhugunarefni fyrir fjárlaganefnd og þá væntanlega einnig fyrir samgöngunefnd, ef við tökum að okkur að fjalla líka um málið þar, er að það er verið að gera hlutina í sama anda og bankarnir gerðu, þ.e. skammtímafjármögnun og „þetta reddast seinna“ eða „við reddum þessu seinna“.

Ríkisábyrgðasjóður leggur til í umsögn sinni að ríkissjóður lágmarki áhættu sína með því að fjármagna langtímalán á markaði og hlýtur það að teljast ábyrg fjármálastjórnun. Það erum við ekki að gera hér, ég get alla vega ekki séð það í kortunum. Eins og ég segi, þetta er ein af alvarlegum ábendingum Ríkisábyrgðasjóðs — ein, þær eru fleiri.

Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda. Ég mun alla vega beita mér fyrir því að við skoðum þetta einnig innan umhverfis- og samgöngunefndar þótt ég virði að sjálfsögðu forræði fjárlaganefndar á málinu.