143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[17:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ástandið í samgöngumálum Vestmannaeyinga hefur verið algjörlega óþolandi í mánuð og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar hefur verið algert. Nú grípur ríkisstjórnin hins vegar til aðgerða, en það eru aðgerðir sem varða stjórnarskrárbundin mannréttindi. Það er þess vegna nauðsynlegt að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hún fullvissað sig um og fullvissar hún Alþingi um að lagafrumvarp það sem hún hefur lagt fram standist stjórnarskrá Íslands og þær skyldur sem hún leggur okkur á herðar?

Í öðru lagi. Efnahagslegt mikilvægi fyrir Ísland hefur mikla þýðingu um heimildir Alþingis til þess að ráðast í lagasetningu af þessu tagi. Hverjir eru hinir efnahagslegu hagsmunir sem í húfi eru? Getur ráðherrann bent á greinargerð fyrir því?

Í þriðja lagi. Hæstv. ráðherra vísar til þess að hér sé um að ræða deilu sem snýr að innan við tíu skipverjum á Herjólfi. Um hversu ríka hagsmuni snýst deilan milli útgerðar og áhafnarinnar? Snýst hún um 5 millj. kr. árlegan kostnað? Um 10 millj. kr. árlegan kostnað? Eða snýst deilan um 15 millj. kr. kostnað eða einhverja aðra tölu? Hversu mikill fjárhagslegur ágreiningur er á milli aðila sem veldur því að hæstv. innanríkisráðherra leggur til við Alþingi í lagafrumvarpi að þessi réttur verði af mönnunum tekinn?