144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa beðið um að hæstv. ráðherrar, annaðhvort hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og jafnvel báðir, verði hér til svara um áætlanir varðandi gjaldeyrishöftin. Mér vitanlega er aðeins ein áætlun í gildi og hún var lögð fram 25. mars árið 2011. Mér finnst algjörlega ótækt að bíða fram á fimmtudag eftir að fá svör frá hæstv. ráðherrum. Ég bið hæstv. forseta að sjá til þess að hér verði fyrirspurnatími á morgun eða bara hreinlega sérstök umræða og skýrsla eins og beiðni hefur komið fram um. Það er fráleitt að bíða fram á fimmtudag með að ræða í þingsalnum þessi tvö stórmál, kjaradeilur og áætlun um afnám hafta sem virðist vera einhvers staðar komin fram en við vitum ekki um.