144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

nám og náms- og starfsráðgjöf fanga.

553. mál
[17:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Varðandi þjónustu náms- og starfsráðgjafa er því til að svara að samkvæmt samningi ráðuneytisins við Fjölbrautaskóla Suðurlands heldur skólinn úti 100% stöðu náms- og starfsráðgjafa til að þjónusta fanga í öllum fangelsum á Íslandi. Þessi háttur er hafður á með það í huga að náms- og starfsráðgjöf við fanga sé nokkuð samræmd óháð því í hvaða fangelsi þeir eru. Allir afplánunarfangar geta stundað nám á Íslandi. Í samningi við Fjölbrautaskóla Suðurlands er kveðið á um kennslu í fangelsum á Suðurlandi og í samningi við Menntaskólann í Kópavogi kemur fram að skólinn annist kennslu í Kópavogi. Á Kvíabryggju og á Akureyri hafa fangar stundað fjarnám. Fangelsin á Suðurlandi bjóða staðbundið mestan fjölbreytileika í námi og í þeim er hægt að stunda lengra nám, enda tekur langstærstur hluti fanga út sína refsingu þar og nær undantekningarlítið þeir sem hljóta lengstu dómana. Ef dómþoli sem hlýtur styttri dóma óskar eftir að vera vistaður á Suðurlandi vegna námsaðstöðu þar er reynt að verða við því.

Þetta er staðan núna, en spurning hv. þingmanns er: Hvað verður gert til framtíðar? Það er auðvitað það sem skiptir mestu máli. Undanfarin ár hefur verið unnið eftir stefnumótun um menntun fanga, sem er frá 2007. Mennta- og menningarmálaráðuneytið er tilbúið að taka þátt í endurskoðun á stefnunni í ljósi þess að verið er að byggja fangelsi á Hólmsheiði og loka um leið fangelsum sem nú eru starfrækt. En það skal taka fram að sú skoðun og sú vinna hlýtur alltaf að fara fram undir forræði innanríkisráðuneytisins. Það er ráðuneytið sem ber ábyrgð á þessum stofnunum og menntamálaráðuneytið getur ekki hlutast til um það sem þar fer fram án þess að það sé gert í fullu samkomulagi við innanríkisráðuneytið og samkvæmt heimildum frá því. Við í mínu ráðuneyti höfum nú þegar haft samband við innanríkisráðuneytið um þetta og komið af stað samtali um þá stöðu sem nú er að koma upp með tilkomu fangelsis á Hólmsheiði.

Virðulegi forseti. Ég átti í morgun fund með Margréti Frímannsdóttur, sem er forstöðumaður fyrir fangelsið á Litla-Hrauni, ásamt fleirum sem koma þar að menntamálum til að ræða akkúrat þessi mál. Á þeim fundi kom fram, sem skiptir auðvitað miklu máli í þessari umræðu, hversu mikilvægt það er að fangar hafi tök á því að stunda nám. Margrét Frímannsdóttir kynnti mér nokkur dæmi um fanga þar sem, vegna þess að þeir hafa getað stundað nám, mikil breyting hefur orðið á þeirra lífi og viðkomandi einstaklingar eiga miklu betri möguleika á því að hasla sér aftur völl þegar betrunarvistinni er lokið. Reyndar kom það mat fram á fundinum að vegna áherslu á nám fanganna hafi endurkomuhlutfallið, sem var mjög hátt á Íslandi og alveg úr takti við það sem gerðist annars staðar á Norðurlöndum, lagast mjög. Þeir sem sátu þennan fund hjá mér voru ekki í nokkrum vafa um að það væri m.a. vegna aukins framboðs á námi.

Aftur á móti eru ýmis álitamál uppi, t.d. varðandi aðstöðu til náms á Hólmsheiðinni og síðan möguleika á verknámi, sem ég hef nokkrar áhyggjur af og þarf að hugleiða alveg sérstaklega, því að mörgum föngum getur hentað sú leið ágætlega. Reyndar er aðalatriðið að hafa í boði fjölbreytt nám, bæði verknám og bóknám fyrir þá sem það vilja. Verknámið er auðvitað svolítið flóknara hvað þetta varðar, það er erfiðara að sinna því í fjarnámi og þess vegna þarf að huga alveg sérstaklega að þeim þætti.

Virðulegi forseti. Aðalatriðið er að góður samhljómur sé á milli allra um mikilvægi þessa máls. En ég ítreka að forræðið hlýtur alltaf að vera innanríkisráðuneytisins. Þetta er starfsemi sem fer fram innan stofnana sem það ráðuneyti ber ábyrgð á og við hljótum að kalla saman þá sem koma að málinu, þ.e. ráðuneyti, fangelsismálayfirvöld og þá sem gerst þekkja til menntunar fanga og síðan starfsmenn frá mínu ráðuneyti og endurnýja þá stefnumótun og þann samning sem var gerður árið 2007 í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða m.a. vegna fangelsisins á Hólmsheiði.