145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

endurskoðun reglugerðar um útgáfu og notkun stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða.

517. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að endurskoðun skuli standa yfir, en samkvæmt þeim heimildum sem ég hef þá hefur endurskoðun staðið yfir síðan 2010. Það finnst mér dálítið ríflegur tími til þess að komast að niðurstöðu í þessu máli. Ég hefði viljað sjá að þetta væri búið að gerast og fer náttúrlega fram með fyrirspurnina vegna þess að þetta er frekar þreytandi fyrir þá sem nýta sér þessa þjónustu. Hæstv. ráðherra nefndi m.a. að skoða ætti hvort draga mætti úr þessari þörf á endurnýjun og talaði um tíu ár. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju það má ekki vera þannig, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, að upplýsingar séu í gagnagrunni þannig að fólk sem er svo sannarlega með langvarandi og ævilanga fötlun eða örorku þurfi ekki að sækja endurtekið um. Samkvæmt því sem ég veit hefur landlæknir ekki viljað setja viðmið um hver fær og hver fær ekki stæðiskort, þar af leiðandi eru engin viðmið til sem er mjög slæmt. Árlega á Íslandi eru endurnýjuð eða gefin út 1.400 ný stæðiskort sem verður að teljast ríflegt. Þetta er ekki til í neinum gagnagrunni heldur eru þetta tölur sem Öryrkjabandalag Íslands og Sjálfsbjörg hafa safnað. Það segir mér að í þessum málaflokki eins og svo mörgum öðrum er tölfræðin ekki til og við vitum ekki hvernig staðan er.

Ég fagna því enn og aftur að endurskoðun standi yfir. Ég skora á hæstv. ráðherra að flýta þeirri endurskoðun. Það kom líka fram í máli hæstv. ráðherra að haft verði samráð við þá sem koma að þessum málum og samvinna. Ég vil ítreka það og benda hæstv. innanríkisráðherra á að hafa samráð við þá sem nota þjónustuna því að eitt af því sem er lykilatriði í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er að (Forseti hringir.) þeir sem nýta þjónustuna séu hafðir með í ráðum.