145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

bygging þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi.

565. mál
[16:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Stofnun og starfræksla þjóðgarða hér á landi er merkilegt framtak sem hefur víða orðið lyftistöng. Það hefur orðið lyftistöng á þeim svæðum sem þeir hafa verið stofnsettir og gera oft mikið fyrir þau byggðarlög þar sem aðsetur þeirra er og þar sem þjónustumiðstöðvar í þeirra þágu eru reistar og geta orðið til eflingar bæði á atvinnu- og menningarlífi viðkomandi héraða.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður 28. júní árið 2001 og er einn af þeim þjóðgörðum sem við höfum nú sameinast um að starfrækja. Undirbúningshópur var skipaður um byggingu þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi árið 2005. Í framhaldinu var efnt til samkeppni og kom fram vinningstillaga um byggingu eða útlit þjóðgarðsmiðstöðvar árið 2006.

Vinningstillagan var síðan fullbúin til útboðs árið 2008 og er gert ráð fyrir að kostnaður við bygginguna sé um 300 millj. kr.

Við þekkjum öll ástæður þess að á þeim tíma var horfið frá því að byggja þá þjóðgarðsmiðstöð sem þá var búið að hanna og undirbúa, en síðan er liðinn allnokkur tími og er tímabært að við förum að huga að næstu skrefum í uppbyggingu fyrir þjóðgarðinn Snæfellsjökul.

Það er mikilvægt að treysta rekstur þjóðgarðsins í sessi með því að við hefjum þær framkvæmdir sem við þurfum að hefja við þjóðgarðsmiðstöðina. Hún er ein og sér mjög mikilvæg, ekki síst vegna móttöku gesta, og að hún sé til fyrirmyndar. Hún er mikilvæg fyrir upplýsingagjöf almennt og ferðamál um Snæfellsnes og Vesturland allt. Fleiri ferðamenn koma nú og dveljast þar lengur en áður þannig að með byggingu þjóðgarðsmiðstöðvarinnar má ætla að fjárstreymi aukist, sem kemur íbúum til góða. Miðstöðin getur þess vegna orðið mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna.

Gestamiðstöð var opnuð á Hellnum árið 2004. Á fyrsta starfsári hennar komu um 4 þúsund gestir í heimsókn, árið 2014 komu ríflega 18 þúsund gestir og árið 2015 voru gestir hátt í 30 þúsund talsins. Á þessum tölum sést hversu gífurleg fjölgun hefur orðið á ferðamönnum á svæðinu.

Því leyfi ég mér, herra forseti, að spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra: Hvað líður áætlunum hennar um forgangsröðun í uppbyggingu þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi?