145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

skipun nýrrar heimsminjanefndar.

478. mál
[17:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem varðar störf heimsminjanefndar. Samkvæmt þeim gögnum sem ég hef verið að reyna að kynna mér á veraldarvefnum hefur ekki verið skipuð ný heimsminjanefnd frá árinu 2013.

Heimsminjanefnd er ekki til daglegrar umræðu í þessum sal, en árið 1995 gerðist Ísland gerðist aðili að samningi UNESCO frá árinu 1972, um verndum menningar- og náttúruarfleifðar heimsins. Í þeim samningi sameinast aðildarríkin um samning til verndar heimsminjum, standa vörð um menningu heimsins og sporna við eyðileggingu minja. Hv. þingmenn hafa tekið eftir því hve öfluga baráttu UNESCO heyr nú gegn eyðileggingu minja af hálfu ISIS-samtakanna eða Daesh-samtakanna. Þar hefur UNESCO verið leiðandi í umræðunni og bent á þá hræðilegu eyðileggingu sem þau samtök standa fyrir.

Hér á Íslandi hefur þetta mál verið undir öllu jákvæðari sýn. Hér hefur verið unnið að því um langt árabil og allt frá 1995 hafa verið starfandi heimsminjanefndir. Sú síðasta var skipuð árið 2009. Þar sátu þjóðminjavörður, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands og síðan fulltrúar umhverfisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Sú skipun rann út 2013 en áður höfðu starfað heimsminjanefndir árin 2005–2007 og 2007–2009, fyrir utan samráðshóp um eftirfylgni samnings UNESCO sem við urðum aðilar að 1995. Áður var starfandi slíkur samráðshópur.

Hlutverk nefndarinnar er að vinna að eftirfylgni við heimsminjasamninginn fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og mennta- og menningarmálaráðherra, undirbúa tilnefningar íslenskra staða á heimsminjaskrá og útbúa yfirlitsskrá yfir þær hugsanlegu minjar sem koma til greina af hálfu Íslands sem svo er afhentur skrifstofu heimsminjanefndarinnar í París. Þar voru á síðasta kjörtímabili fulltrúar þjóðminjavörslu og náttúruverndar eins og ég fór yfir.

Ég velti því fyrir mér og spyr hæstv. ráðherra: Hefur ný nefnd hafi verið skipuð? Ef hún hefur ekki verið skipuð, hvernig er þá háttað eftirfylgni við heimsminjasamning UNESCO? Við höfum séð ýmsar minjar á Íslandi fara á þennan merka lista. Því fylgir mikil ábyrgð en líka mikil virðing. Þetta eru staðir sem eru gríðarlega oft fjölsóttir ferðamannastaðir, svo dæmi sé tekið á sviði náttúruminja. Við erum líka með handritin okkar, menningararfinn okkar á lista sem fjallar um óáþreifanlegan menningararf.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í þessi mál: Hvernig er eftirfylgni er háttað? Stendur til að skipa nýja heimsminjanefnd?