149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

Jafnréttissjóður Íslands.

570. mál
[16:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguræðuna með álitinu. Ég tek eindregið undir að það er mikilvægt að setja þetta mál í skýrara og betra horf. Ég var eindregið talsmaður þess, enda einn af flutningsmönnum málsins sem formaður flokks, að breyta fyrirkomulaginu og ég tel það mjög til bóta að það fari inn til Rannís.

Ég er síður en svo mótfallin því að þetta verði varanleg fjárhæð. Ég spyr hins vegar hvort það hafi átt sér stað heildstætt mat, úttekt á framlögum til jafnréttismála, til þeirra þátta sem þingsályktunin tekur til, þannig að við fáum heildstæða sýn á hvað fari í rannsóknir og þróun á grunni jafnréttismála.

Síðan langar mig að vita hvort hv. þingmaður telji til bóta að færa þetta inn í þriggja manna hóp. Ég lagði mjög ríka áherslu á það þegar gerð var breyting á skipun stjórnar sjóðsins — í dag eru þetta pólitískt skipaðir fulltrúar eða fulltrúar flokka — að haft yrði samráð, af hálfu forsætisráðherra, við skipan fulltrúa forsætisráðherra.

Mig langar að vita hvort hv. þingmaður telji að það sé alveg tryggt að haft verði samráð. Hvaða ferlar eru nákvæmlega til þess að hafa það samráð? Það verður að segjast að eins og vinnulagið er, ekki bara þessa dagana heldur hefur það verið svo á kjörtímabilinu, er ekki beint um móttækilegt samráð að ræða. Það skiptir mig máli að vita hvernig það sé tryggt að hæstv. forsætisráðherra hafi samráð við alla flokka á þingi varðandi skipun fulltrúa í stjórn. Við höfum svolítið skiptar skoðanir og mismunandi nálgun að því hvernig hægt sé að auka, efla og styrkja rannsóknir á sviði jafnréttismála.