149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

Seðlabanki Íslands.

790. mál
[19:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir, margir erlendir sérfræðingar hafa lagt þetta til. Ástæðu þess að ekki var ráðist í þetta við endurskoðun laganna 2009 tel ég ekki snúast um valdabaráttu þáverandi ráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, heldur tel ég að menn hafi talið að ekki væri ráðrúm til að ráðast í það stóra verkefni á þeim tímum sem þá voru. Þá voru gerðar margar mjög góðar breytingar á lagaumhverfi Seðlabankans, til að mynda hvað varðar skipun seðlabankastjóra, skipun hæfnisnefndar, tímalengd embættistíma, sem ég vil halda í þessu frumvarpi. Þó að einhverjir kunni að telja að erfitt sé að fá hæfa einstaklinga sem eru reiðubúnir að gegna þessu embætti í tíu ár held ég að það sé mjög mikilvægt að við séum ekki með æviráðningar í þessum störfum. Þannig að: Nei, ég held að þetta hafi ekki verið valdabarátta á milli þeirra, enda störfuðu þau ekki þannig. Svo sannarlega er þetta ekki heldur til marks um neina valdabaráttu milli núverandi stjórnarflokka heldur byggjum við þetta frumvarp fyrst og fremst á faglegum rökum sem við viljum fylgja eftir.

Ef ég ætti að svara hv. þingmanni með einhverju glensi sýnist mér sem völd forsætisráðherra aukist jafnvel enn með þessu frumvarpi þannig að ég veit ekki alveg hvort ég get dregið þá ályktun sem hv. þingmaður dregur. En þetta snýst ekki um það, þetta snýst bara um fagleg rök sem ég tel mjög sterk.

Ég skil alveg þær áhyggjur að þetta verði stór stofnun en ég minni líka á að við erum 350.000 manna samfélag. Hversu margar stofnanir ætlum við að hafa til þess að sinna þessu mikilvæga hlutverki? Fáum við kannski meira virði út úr því að sameina alla þessa góðu, kláru einstaklinga í þessum tveimur stofnunum í eina stofnun?