149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

vátryggingarsamningar.

763. mál
[21:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga. Með frumvarpinu verður hluti af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2016/97, um dreifingu vátrygginga, leiddur í lög hér á landi. Með dreifingu vátrygginga er í fyrsta lagi átt við starfsemi sem felst í því að gefa ráðgjöf um vátryggingarsamning, gera tillögu um hann eða gera samninginn sjálfan. Dreifingin felst einnig í að aðstoða við umsýslu eða efndir samningsins.

Í öðru lagi felst dreifing vátrygginga í því að veita upplýsingar um vátryggingarsamninga á vefsíðu eftir viðmiðum sem viðskiptavinur velur, einnig að gera samantekt um vátryggingar sem eru í boði ásamt verði, samanburði eða afsláttum ef viðskiptavinur getur gert vátryggingarsamning á vefsíðunni.

Dreifingaraðilar eru vátryggingafélög, vátryggingarmiðlarar, vátryggingaumboðsmenn og aðrir sem dreifa vátryggingum sem aukaafurð.

Í frumvarpinu eru ákvæði um upplýsingaskyldu dreifingaraðila. Auk þess eru ákvæði um vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir.

Helstu nýmæli í frumvarpinu eru eftirfarandi:

Vátryggingarmiðlari skal upplýsa um tiltekin atriði svo fyrir liggi að ekki séu hagsmunaárekstrar sem geti dregið úr trausti við dreifinguna og til að tryggja gagnsæi gagnvart viðskiptavininum. Í því skyni skal vátryggingarmiðlari m.a. veita upplýsingar um hvort hann fari með virkan eignarhlut í vátryggingafélagi eða hvort vátryggingafélag farið með virkan hlut í vátryggingarmiðluninni. Þá skal vátryggingarmiðlari upplýsa um hvort ráðgjöf sé veitt á hlutlausan hátt og í samræmi við þarfagreiningu. Vátryggingarmiðlari skal einnig upplýsa um hvort hann er samningsbundinn vátryggingafélagi eða ekki.

Í öðru lagi er upplýsingaskylda nýmæli vegna endurgjalds fyrir dreifingu vátrygginga og er um mun ítarlegri upplýsingaskyldu að ræða en í gildandi lögum og m.a. skal upplýsa um form endurgjaldsins.

Í þriðja lagi má nefna hér ákvæði um þarfagreiningu sem leggur þá skyldu á dreifingaraðila að greina þarfir viðskiptavinar og gefa upplýsingar sem byggjast á þarfagreiningunni. Ákvæðið er sett til að tryggja að upplýsingar séu hlutlausar. Þarfagreiningin tekur mið af vátryggingunni sem er verið að kynna og ef um flókna vátryggingu er að ræða skal þarfagreiningin vera ítarlegri. Viðskiptavinur skal ávallt vera upplýstur um af hverju tiltekin vátrygging henti honum betur en önnur.

Næst vil ég nefna að formskilyrði við upplýsingagjöf eru mun ítarlegri en í gildandi lögum og skal veita upplýsingar á pappír eða öðrum varanlegum miðli. Gert er ráð fyrir að unnt sé að veita upplýsingar á vefsíðu dreifingaraðila ef viðskiptavinur samþykkir það.

Einnig er nýmæli í ákvæði um vátryggingu sem boðin er með vöru eða þjónustu sem hluti af pakka eða í sama samningi. Kveðið er á um að veita skuli upplýsingar um hvort unnt sé að kaupa afurðirnar hvora í sínu lagi og þá skal veita upplýsingar um hvora afurð fyrir sig auk aðgreinds kostnaðar.

Einnig er það nýmæli hér með upplýsingagjöf vegna skaðatrygginga. Það skal samkvæmt frumvarpinu vera á sérstöku stöðluðu upplýsingaskjali og er ítarlega tilgreint hvernig form upplýsingaskjalsins eigi að vera og innihald þess.

Þá er í frumvarpinu gert skylt að hafa vöruþróunarferli þegar nýjar vátryggingar eru þróaðar eða verulegar breytingar gerðar á vátryggingum sem eru til staðar. Slíkt vöruþróunarferli skal m.a. hafa skilgreindan markhóp fyrir vátrygginguna og meta skal sérstaklega áhættur sem skipta máli fyrir markhópinn.

Þá er lagt til að nýr kafli verði í lögunum um vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir. Vátryggingatengdar fjárfestingaafurðir eru áhættu- og söfnunarlíftryggingar með fjárfestingaráhættu. Í kaflanum eru ákvæði sem gera ráð fyrir því að dreifingaraðilar hafi skjalfest verklag til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Einnig skal greina mögulega hagsmunaárekstra og upplýsa viðskiptavin ef ekki er mögulegt að tryggja hagsmuni hans með óyggjandi hætti. Sérstök upplýsingaskylda er um þarfagreiningu fyrir viðskiptavin. Hann skal upplýstur um hvort hann muni reglulega fá þarfagreiningu, mögulegar fjárfestingarleiðir og kostnað og gjöld vegna afurðarinnar. Upplýsingar skulu afhentar á sérstöku formi svo að viðskiptavinur geti áttað sig á heildarkostnaðinum og samlegðaráhrifum á ávöxtun af fjárfestingunni. Viðskiptavinur á að geta skilið eðli og áhættu afurðarinnar svo að hann geti tekið upplýsta ákvörðun um fjárfestinguna. Þá skal dreifingaraðili afla upplýsinga um þekkingu og reynslu viðskiptavinar til að kanna getu hans til að taka á sig tap og svo að unnt sé að mæla með hentugri afurð.

Að lokum eru í frumvarpinu lagðar til heimildir fyrir Fjármálaeftirlitið til að leggja á stjórnvaldssektir.

Í frumvarpinu er kveðið á um skyldu til að koma á fót úrskurðarnefnd vegna dreifinga vátrygginga svo að unnt sé að skjóta ágreiningi þangað vegna réttinda og skyldna viðskiptavina.

Virðulegi forseti. Meginmarkmið frumvarpsins er að auka neytendavernd með auknum og samræmdum kröfum um upplýsingaskyldu dreifingaraðila. Kröfurnar ganga lengra og ná til fleiri aðila en núgildandi kröfur en kostnaður við að mæta kröfunum er ekki talinn verulegur. Frumvarpið felur í sér auknar skyldur á Fjármálaeftirlitið sem hefur í langtímaáætlun lagt mat á þær. Samkvæmt áætluninni er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi fyrirséðar breytingar á tekjur eða útgjöld Fjármálaeftirlitsins. Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.