150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

afsal þingmennsku.

[13:33]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Þá hefur forseta borist bréf frá 7. þm. Reykv. n., Þorsteini Víglundssyni, þar sem hann segir af sér þingmennsku frá og með deginum í dag, 14. apríl 2020. Bréfið er svohljóðandi:

„Með bréfi þessu segi ég af mér þingmennsku frá og með 14. apríl nk. þar sem ég hef ráðið mig til starfa á öðrum vettvangi og hef störf þar síðar í þessum mánuði.

Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt á vettvangi stjórnmálanna sl. tæp fjögur ár. Ég hef tvívegis verið kjörinn þingmaður Reykvíkinga og það er mér mikill heiður að hafa fengið að sitja á Alþingi Íslendinga þennan tíma.

Þótt átök einkenni gjarnan störf þingsins í opinberri umfjöllun er mér efst í huga á þessum tímamótum sú dýrmæta reynsla sem ég hef öðlast og góð samskipti og vinskapur við samherja jafnt sem pólitíska andstæðinga. Ég kveð með söknuði allt það góða fólk sem ég hef starfað með á Alþingi á undanförnum árum, bæði þingmenn og ekki síður allt hið hæfileikaríka starfsfólk sem starfar fyrir Alþingi.

Ég óska þeim öllum velfarnaðar í mikilvægum störfum sínum fyrir land og þjóð.

Þorsteinn Víglundsson,

7. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður.“

Ég vil af þessu tilefni að sjálfsögðu færa Þorsteini Viglundssyni þakkir fyrir störf hans á Alþingi á undangengnum árum og ég óska honum fyrir hönd okkar allra farsældar í þeim störfum sem hann tekur sér fyrir hendur.