150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það að tala um áhrif Covid-19 er gríðarlega víðfeðmt verkefni. Mér finnst ágætt á þessum tímapunkti að rifja upp að það eru ríflega 100 dagar síðan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin var upplýst um þennan væntanlega veirufaraldur sem við þekkjum öll núna sem Covid-19 og í dag eru 46 dagar síðan fyrsta smitið greindist á Íslandi. Á ekki lengri tíma hefur nánast allt gjörbreyst. Áhrifin á efnahagslífið eru gríðarleg, álagið á heilbrigðiskerfið sömuleiðis en ekki síst á daglegt líf okkar, samfélag og samskipti. Við sjáum aðgerðir sem við höfum ekki séð áður. Í gær samþykkti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að fella niður skuldir 25 fátækra ríkja til að létta á þeim vegna faraldursins og er þetta gert til að gefa þessum ríkjum svigrúm til að nýta sjóði sína í þágu heilbrigðiskerfisins og annarra nauðsynja í baráttunni við veiruna. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, hefur sent þjóðum heimsins ákall um að stríðandi fylkingar leggi niður vopn þannig að þjóðir heims geti tekist á við veiruna.

Hér á Íslandi er staðan sú að núna virðist smitum hafa fækkað nokkra daga í röð og áðan kynntum við skrefin fram undan í því að létta á skilyrðum samkomubannsins. Mér finnst mikilvægt að segja hér að þau skref verða þó ekki tekin fyrr en eftir 4. maí. Enn eru eftir þrjár vikur af þeim takmörkunum sem eru í gildi. Ég skynja það víða í kringum mig að margir eru orðnir þreyttir á takmörkununum en þetta er verkefni sem við verðum að klára sameiginlega. Árangurinn af því mun skipta okkur öll verulega miklu máli. Við megum ekki fórna þeim árangri sem við höfum þegar náð, fórna heilsu fólks, og þess vegna skiptir máli við stöndum saman næstu þrjár vikur við að klára þessar takmarkanir og þá verður hægt að létta þeim af í skrefum sem verða fá og stór. Það er líka mikilvægt að fara ekki of hratt í þau skref.

Ég sagði áðan á blaðamannafundi, af því að mér finnst gaman að ganga á fjöll, að allir hafi upplifað það að standa fyrir framan tindinn og eiga bara síðustu skrefin eftir og þá getur freistingin verið mjög mikil að setjast niður, fá sér nesti og segja: Er þetta ekki bara gott? Allir þekkja líka þá freistingu ef þeir hafa haft það af að komast upp á tindinn að hlaupa niður, en þá getur manni skrikað fótur og maður endað á nefinu. Það er ekki gott fyrir neinn. Við verðum að gæta þess þegar við tökum þessi skref að gefa okkur tíma til að meta stöðu faraldursins. Eins og kom fram í máli sóttvarnalæknis áðan er markmiðið að ná smitunum niður í núll. Það þýðir ekki að eitt og eitt smit geti ekki komið upp, en það er markmiðið sem við stefnum að. Af hverju stefnum við að því markmiði? Jú, til þess að við getum farið saman út úr þessum takmörkunum. Ég veit að við mörg hér inni, eins og allir landsmenn, eigum ættingja sem eru orðnir aldraðir, jafnvel á hjúkrunarheimilum, og hafa hitt fáa undanfarnar vikur. Það skiptir máli að takmörkunum verði líka létt af okkar eldra fólki þannig að það geti komist út á meðal fólks og hitt ættingja sína og vini.

Fram kom í máli dómsmálaráðherra áðan á þeim blaðamannafundi sem haldinn var að ósk hefði borist um að framlengja takmarkanir á ytri landamærum Schengen-svæðisins um 30 daga. Ég vænti þess að Ísland verði við þeirri ósk af því að jafnframt liggur fyrir að við sjáum ekki enn fyrir hvenær landamæri munu opnast milli landa.

Í þessari óvissu höfum við verið að kynna og munum kynna aðgerðir til að styðja við atvinnulíf og samfélag á Íslandi. Ég ætla ekki að dvelja lengi við þær aðgerðir sem hafa þegar verið kynntar og er verið að framkvæma eins og hlutastarfa- eða hlutabótaleiðina sem hefur skipt verulega miklu máli. Þó vil ég segja að við gerum ráð fyrir að við munum framlengja hana en við gerum líka ráð fyrir því að hugsanlega þurfi að gera einhverjar breytingar á þeirri leið út frá þeirri reynslu sem er komin. Upphaflega markmiðið, og það hefur verið skýrt allan tímann, var að þessi leið væri fyrir launafólk í landinu fyrst og fremst og til að tryggja afkomu launafólks. Þess vegna var hún mjög opin og hún var samþykkt mjög opin á Alþingi. Þetta þarf að meta núna þegar við skoðum framkvæmd leiðarinnar.

Við munum á næstunni sjá framkvæmd brúarlána fyrirtækja í gegnum samkomulag Seðlabankans og ríkisins þegar við verðum á lokametrunum við að ljúka samningi og kannski hefur það þegar gerst í morgun, ég ætla ekki að sverja fyrir það, milli ríkisins og Seðlabankans um framkvæmd þessara lána. Eins og kunnugt er þurfa fyrirtæki að uppfylla skýr skilyrði til að eiga rétt á slíkum brúarlánum með ríkisábyrgð.

Það blasir við að við þurfum að kynna frekari aðgerðir til skemmri tíma. Ég vil sérstaklega nefna lítil fyrirtæki sem hafa beinlínis þurft að loka vegna sóttvarnaráðstafana. Ég nefni þá sem eru sjálfstætt starfandi og einyrkjar. Ég nefni stöðu námsmanna, en samkvæmt nýlegri skoðun telja u.þ.b. 40% námsmanna á Íslandi sig ekki eiga von á því að fá sumarstarf. Þetta eru bara nokkur dæmi af mörgum um þær áskoranir sem blasa við okkur öllum í því sem við þurfum að takast á við. Þar þurfum við að hugsa til skemmri tíma, þ.e. hvernig við ætlum að horfa til næstu vikna og mánaða, en við þurfum líka að fara að hugsa til lengri tíma, hvernig Ísland verður þegar þessi faraldur verður genginn niður — því að hann mun gera það — og þá þurfum við að vega og meta hvernig samfélag stendur eftir.

Ég hef verið gríðarlega ánægð með þá samstöðu sem maður hefur skynjað í samfélaginu í því að takast á við veiruna. Bæði fyrirtæki og fólk hafa sýnt mikla ábyrgð. Flokkar á Alþingi hafa sýnt mikla ábyrgð og þetta er dýrmætt, en þá verður maður líka reiður þegar fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega 10 milljarða vegna makrílúthlutunar. Það er ekki góð leið til að efla samstöðu í samfélaginu. Það er ekki góð leið til að vera á sama báti í gegnum það ferðalag sem við erum stödd í. Þó að ég telji að ríkið hafi góðan málstað í því máli finnst mér eðlilegt að þessi fyrirtæki íhugi að draga kröfurnar til baka. Nú reynir nefnilega á ábyrgð okkar allra, hvort sem við erum að reka fyrirtæki, erum launafólk, þingmenn eða hver sem við erum. Fram undan eru brattar brekkur, ekki bara hvað varðar takmarkanir á samkomum, það eru brattir tímar fram undan í efnahagslífinu.

Þá kem ég að því sem ég nefndi áðan um hvernig Ísland verður eftir þennan faraldur. Það er erfitt að segja til um hvaða heimsmynd mun blasa við okkur. Ég leyfi mér að fullyrða að ekkert okkar í þessum sal hefði spáð því í september, í upphafi þings, að við yrðum nú með lokuð landamæri í Evrópu, meira að segja á milli Norðurlandanna. Við munum ekki ráða við sumt í því hvernig málin þróast en við getum ráðið við ansi margt. Eins og ég hef ítrekað sagt stendur íslenskt samfélag vel í því verkefni að takast á við þennan faraldur, m.a. efnahagslega. Við höfum rætt um öflugan gjaldeyrisvaraforða, um litla skuldsetningu ríkis, atvinnulífs og einstaklinga, lágt vaxtastig og margt fleira sem hefur lagst með okkur í hinni efnahagslegu baráttu. Ég vil líka nefna grunnstoðir samfélagsins, skólakerfið sem hefur haldið uppi störfum þrátt fyrir feikilega erfiðar aðstæður og auðvitað heilbrigðiskerfið sem hefur gengið í gegnum eitt mesta álagspróf síðari tíma og það stenst það við gríðarlega erfiðar aðstæður.

Við þurfum líka að hugsa til framtíðar og í öllum kreppum felast nýir möguleikar. Við höfum tækifæri til að byggja hér upp á sviði nýsköpunar, rannsókna og þróunar. Þessi faraldur hefur meira að segja gert það að verkum að formenn stjórnmálaflokka náðu óbrengluðum fjarfundi í morgun í fyrsta sinn í sínum samskiptum sem ég lít svo á að hafi verið ákveðið stökk okkar inn í fjórðu iðnbyltinguna. Hugsanlega mun þessi faraldur virka eins og hraðall fyrir fjórðu iðnbyltinguna þar sem þær breytingar sem við vitum að eru fram undan munu ganga hraðar yfir. Þær kunna líka að fela í sér tækifæri fyrir íslenskt samfélag.

Þessi faraldur hefur minnt okkur á það hversu ótrúlega hátt hlutfall matvæla er innflutt á Íslandi. Getum við ekki gert betur í því að framleiða meira af matvælum okkar hér heima og verið þannig öðrum minna háð í þeim efnum? Og það sem til að mynda Íslensk erfðagreining hefur lagt af mörkum í þessum faraldri minnir okkur á þau tækifæri sem við eigum í því að gera betur þegar kemur að heilbrigðisvísindum, rannsóknum og þróun á sviði heilbrigðismála. Það er nokkuð sem við eigum líka að horfa (Forseti hringir.) á til framtíðar. Ég kemst ekki lengra, herra forseti, og biðst afsökunar á því að hafa farið fram yfir tímann.