150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:18]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Þegar við stöldrum hér við í miðri baráttunni við Covid-19 og veltum fyrir okkur hver staðan er er rétt að rifja upp hvaða markmið við höfðum við að ná tökum á þessari veiru og hvaða ákvarðanir um sóttvarnaaðgerðir voru teknar til þess. Jú, það var gert til þess að heilbrigðiskerfið réði við þetta, það yrði aldrei meiri faraldur en svo og að hafa mannslát eins fá og hægt væri. Ég held að megi segja að okkur hafi gengið býsna vel á þessari vegferð, líka í samanburði við aðrar þjóðir. Við höfum kannski verið með minna af pólitískum yfirlýsingum en við höfum undirbúið okkur betur í heilbrigðiskerfinu og heilbrigðiskerfið hefur svo sannarlega staðið undir kröfu okkar um að takast á við þetta. Þar er auðvitað ekki síst að þakka því frábæra fólki sem þar vinnur og vil ég nota tækifærið og þakka öllu því framlínufólki frábær störf. Síðan höfum við á pólitíska sviðinu horft á efnahagsmálin. Við kynntum í kringum 20. mars aðgerðir er lutu að vernd. Eitt af því sem skiptir máli og við höfum ekki rætt mikið er mikilvægi þess að skólahald gæti haldið áfram. Það var mikilvægt fyrir samfélagið, til að verja samfélagið, að skólahald héldi áfram eins og hægt var, auðvitað með ákveðnum takmörkunum. Við fórum í varnir þar sem hlutastarfaleiðin hefur kannski verið sú veigamesta og skipt mestu máli. Við höfum frestað gjalddögum, skattgreiðslum, bæði sveitarfélög og ríki, það hefur líka hjálpað til. Allt var þetta gert vegna þess við vorum að horfa á tíma sem væri takmarkaður í lengd. Viðspyrna: Við samþykktum um 18 milljarða fjárfestingu til að koma atvinnulífinu í gang, því atvinnulífi sem þó gæti starfað.

Núna stöndum við frammi fyrir þeirri öfundsverðu stöðu, vegna þess að við tókum fullt af réttum ákvörðunum, með okkar frábæra fólk í framlínunni, að geta byrjað á því að létta af takmörkunum. Vissulega er það ekki fyrr en eftir þrjár vikur, en það er á sama degi og sumar þjóðir eru enn að boða lengingu á útgöngubanni, þjóðir sem við héldum að væru með ágætisheilbrigðiskerfi líka og væru að gera góða hluti. Allir eru að gera sitt besta. Við horfum hins vegar á það hvað þessi veira gerir því að hún er óvissuþátturinn. Hún er það sem veldur þessu. Og hvað gerir hún nú? Mun hún halda áfram að haga sér með óbreyttu sniði? Halda áfram að herja á? Mun hún leggjast í dvala eins og inflúensuveirur margar gera, koma árstíðabundið upp, koma upp aftur og aftur? Við vitum það ekki. Er það óskhyggja að hún hverfi eins og stundum hefur gerst í þessum veiruheimi? Við vitum ekki svörin við öllu þessu eins og staðan er í dag. Þess vegna þurfum við að vera viðbúin öllu. Þess vegna erum við að horfa á efnahagsaðgerðir númer tvö, sem við getum vonandi unnið í lok þessarar viku eða í byrjun næstu viku. Þar munum við án efa halda áfram að horfa á einhvers konar vernd samfélagsins og á félagslegar áherslur, til að mynda tengsl náms og námsmanna við störf og frekara nám, koma fleira fólki til starfa. Við munum horfa án efa á varnir, leita allra leiða til að tryggja lausafé og rekstur fyrirtækja. Hér hafa verið nefnd í dag litlu fyrirtækin sem var lokað af völdum sóttvarna. Auðvitað þurfum við að skoða stöðu þeirra. Það liggur í augum uppi. Þau voru að verja samfélagið og það er eðlilegt að samfélagið verji þau.

Við munum líka skoða viðspyrnu og þar þurfum við að horfa til nýsköpunar. Við höfum talað um það. Við höfum talað um í dag að þetta gæti orðið hraðall fyrir stafrænt Ísland. Við getum farið hraðar inn í það umhverfi en við þurfum að horfa á nýsköpun í öllum atvinnugreinum. Við höfum líka talað um að við þurfum að styrkja og vera tilbúin að byggja upp ferðaþjónustuna að nýju. Við lögðum til í pakka eitt 1,5 milljarða í innanlandsátak. Við þurfum kannski að hvetja enn frekar til innanlandsneyslu með ferðaþjónustunni í landinu á næstu mánuðum. Við þurfum alveg örugglega að horfa á matvælaframleiðslu. Við erum auðlindadrifið hagkerfi að stóru leyti. Við þurfum auðvitað að horfa á hina þættina, auka það sem oft er kallað „eitthvað annað“. Staðreyndin er sú að ferðaþjónustan mun skila okkur minni tekjum. Afurðir orkufreks iðnaðar munu skila okkur minni tekjum af því að heimsneyslan er komin niður, en það sem er augljóst að verður áframhaldandi neysla á og eftirspurn eftir er matur. Þar erum við sterk. Við eigum augljóslega að horfa til þess. Ríkisstjórnin og landbúnaðarráðherra eru einfaldlega þessa dagana að vinna að samningum við garðyrkjubændur. Þar hlýtur að verða horft í lækkun á dreifikostnaði raforku, eins og við höfum oft talað um, og viðhalda þeim stuðningi eins háum og hægt er. Það hljóta að koma til álita einhvers konar landgreiðslur til að hvetja til útiræktunar á grænmeti sem við höfum séð að hefur hrapað í hlutfalli miðað við innflutning á síðustu árum. Ef við meinum eitthvað með því að auka innlenda matvælaframleiðslu á þessum tíma þá hljótum við að skoða, og það hefur verið til skoðunar í landbúnaðarráðuneytinu, tollana, tollverndina. Tollar eru jú notaðir til að vega upp kostnað, mismunandi stofnkostnað, rekstrarkostnað við framleiðslu. Það er hugsunin á bak við tolla. Við höfum látið það óáreitt í mjög langan tíma. Ef við meinum eitthvað með því að við ætlum að auka innlenda framleiðslu er það nokkuð augljós leið að skoða það líka, myndi ég telja.

Við þurfum að horfa á sjávarútveginn. Við þurfum að horfa á það sem hefur verið okkar stærsta tækifæri, ekki síst í útflutningi, að auka virði sjávarútvegs. Það getur komið inn átak á heimsvísu í að selja ímynd okkar, vöru og gæði. Sjávarútvegurinn sjálfur hefur getað staðið undir því en vegna þess að aðrir auðlindageirar eru að gefa mjög mikið eftir á þessu ári gætum við þurft að velta því fyrir okkur hvort við ættum að nota þá frábæru stöðu sem við erum búin að skapa með því að byggja upp sterka stofna að veiða einfaldlega meira í eitt skipti í því skyni að búa til tekjur fyrir samfélagið. Það er eitt af því sem mér finnst að við ættum alla vega að velta vöngum yfir.

Það er augljóst að við þurfum að viðurkenna það að aðgerðirnar sem við erum að velta fyrir okkur núna munu án efa ekki duga. Ef veiran hagar sér með versta hætti getur vel verið að við þurfum að grípa inn á næstu mánuðum og jafnvel lengra inn í framtíðina. Við vitum það einfaldlega ekki. Við þurfum bara á hverjum tíma að grípa til þeirra aðgerða sem við teljum skynsamlegastar. Það er það sem við þurfum að gera. Við erum hins vegar á góðum stað. Það er vegna þess að menn hafa farið í réttar aðgerðir, tekið réttar ákvarðanir, bæði litlar og stórar. Bara það að fresta páskamatarboðinu var góð ákvörðun hjá hverjum og einum, að ferðast innan húss eins og gert var með góðum hætti og frábær markaðssetning á, skemmtilegt lag, mikil samstaða. Það skiptir máli og ég er stoltur af samstöðu þjóðarinnar. Allir hafa lagt sitt af mörkum. En núna þegar það eru þrjár vikur í að við ætlum að létta takmörkunum, smitunum mun fækka, verður erfiðara að minna okkur á að halda samstöðunni. Munum þá að það þarf ekki nema einn smitaðan, eina kvöldstund, eina góða kvöldstund til að búa til nýja hópsýkingu. Munum líka eftir þeim sem hafa orðið alvarlega veikir, sumir höfðu verið bara heilbrigðir, munum virkilega eftir þessu á næstu vikum þegar við sjáum veiruna vonandi gefa eftir. Fögnum ekki sigri of fljótt og þá mun okkur farnast vel.

Mín lokaorð er einfaldlega þessi: Við þurfum að halda samstöðunni. Við náum sigri, samfélagið allt, við munum ná því að lokum en fögnum ekki sigri of fljótt. Á næstu vikum og mánuðum gætum við þurft að velta vöngum yfir því hvernig við ætlum að ná sem sterkastri viðspyrnu og þar er augljóst að innlend framleiðsla mun skipta mjög miklu máli.