150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og vil byrja á því að færa þakkir til almannavarna og heilbrigðiskerfisins sem hafa svo sannarlega staðið sig vel í að tryggja heilbrigði þjóðarinnar.

Smit í rénun er mikilvægur áfangi og útlit er fyrir að við séum að ná tökum á verkefninu, að teygja á álagsferli heilbrigðiskerfisins og viðhalda viðráðanlegri stöðu. En það er kannski þá sem mikilvægast er að halda árvekni og að við höldum áfram að verja heilbrigðiskerfið álagi svo að það sé ávallt sem hingað til í stakk búið að hlúa að öllum þeim sem á þurfa að halda, hvort heldur það er Covid-19 eða annað sem steðjar að. Á hinn bóginn verðum við að vera óhrædd, þó kannski fyrst og fremst samstiga og skynsöm, að feta okkur veginn til rútínubundnara lífs, ef við getum kallað það svo, virðulegi forseti, og með þá hvort tveggja í huga, starfhæft heilbrigðiskerfi og heilbrigt starfhæft samfélag.

Þegar ráðið er í aðgerðir annarra þjóða er það fyrst og fremst eitt sem flestir og allir eru sammála um, þ.e. óvissa, og þá um leið hvernig eigi að feta veginn til baka í átt til þess sem við getum kallað venjubundnara gangverk í samfélagi, atvinnu- og efnahagslífi. Þetta speglast m.a. í því að enginn treystir sér til að spá heldur eru teiknaðar upp sviðsmyndir um framvinduna út frá mismunandi forsendum. Það sem liggur þó fyrir er að ríkissjóðir landa verða að taka við miklu höggi. Við erum undir það búin, hallinn mun verða verulegur og markast af hinni efnahagslegu niðursveiflu, þeirri verðmætasköpun sem við förum á mis við og sem af ástandinu hlýst og beinum útgjöldum af þeim aðgerðapökkum sem ráðist er í til varnar fyrirtækjum og heimilum.

Það á ekkert hik, virðulegi forseti, að vera á okkur í framhaldinu við að búa sem best í haginn og koma okkur út úr þessu ástandi.