150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:14]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Af mörgu er að taka þegar verið er að ræða viðbrögð við Covid-19, hvort sem um er að ræða viðbrögð við heilsufarsvánni sem slíkri eða afleidd efnahagsleg og samfélagsleg áhrif. Til skemmri tíma snýst vinnan um skaðaminnkun og það er sannarlega ærið verkefni, eins og ítrekað hefur verið nefnt hér, en til lengri tíma felast líka tækifæri í stöðunni, tækifæri til að hrista upp í kerfum sem hafa setið eftir þegar samfélagið hefur þróast áfram, tækifæri til að laga þau að þörfum nútímans og framtíðarinnar frekar en að verja fortíðina, tækifæri til að laga kerfin að hagsmunum almennings.

Fjölmargir hafa, og með réttu, minnt á mikilvægi landbúnaðarins við þær aðstæður sem nú eru uppi. Landbúnaður er og verður vonandi um ókomna tíð ein af undirstöðum atvinnulífs okkar og samfélagsins í dreifðum byggðum landsins og mikilvægur þáttur í matvælaöryggi landsmanna. Þeim fjölgar þó sífellt sem efast, og það með réttu, um að núverandi styrkjakerfi sé best til þess fallið að treysta þessa stoð til framtíðar. Þróun í framleiðsluháttum og breytingar á neysluvenjum almennings kalla á breytingar. Þær breytingar þurfa ekki og munu ekki fela í sér niðurfellingu á fjárhagslegum stuðningi ríkisins, öðru nær, en fjárstuðningurinn þarf að ná til fjölþættari starfsemi í landbúnaði en nú er, m.a. til að örva nýliðun í greininni.

Sjávarútvegurinn fer ekki varhluta af neikvæðum áhrifum Covid-19. Á sama tíma berast fréttir af kröfum sjö útgerðarfélaga sem vilja ríflega 10 milljarða í bætur úr ríkissjóði í kjölfar dóms Hæstaréttar um ólögmæti úthlutunarinnar á makrílkvóta fyrir tveimur árum. Þessar kröfur hafa mætt andúð í samfélaginu, m.a. í liði stjórnarþingmanna, sem fyrir ári greiddu þó allir sem einn atkvæði gegn því að tímabinda heimildir til makrílveiða. Við alþingismenn setjum lögin. Það er holur hljómur í því að gagnrýna afleiðingar kerfis sem leggur grunn að þessum kröfum útgerðarinnar sem vissulega má taka undir að eru óheyrilegar, ekki síst á þessum tímum, en vilja á sama tíma ekki taka þátt í að færa þetta sama kerfi til betri vegar með nauðsynlegum breytingum á stjórnarskránni.

Herra forseti. Það er svo ekki nóg með að Covid-19 ógni heilsu landsmanna almennt (Forseti hringir.) heldur er hætta á að heimilisofbeldi aukist enn frekar í samkomubanni og einangrun. Þegar eru uppi vísbendingar um að svo sé. Staðreyndin er sú að heimilin eru ekki griðastaður allra. Við þurfum öll að vera á varðbergi, hafa augu og eyru opin, hugsa til ættingja, vina, samstarfsfélaga, kunningja, nágranna og annarra sem við eigum samskipti við. Grípum inn í þegar okkur þykir ástæða til. Heimilisofbeldi á aldrei erindi í samfélagi okkar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)