150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Samráð, samtal, samvinna, samstaða. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra að í þinginu hefur ríkt mikil samstaða um þau mál sem þegar hafa verið tekin til afgreiðslu vegna áhrifa Covid-19 en það er ekki vegna þess að ríkisstjórnin hafi sýnt áhuga á samráði, samtali eða samvinnu. Með mikilli virðingu fyrir því að einstakir þingmenn eða þingflokkar geti sent tillögur á netfang ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins langar mig til að benda hæstv. forsætisráðherra á mjög gott viðtal í morgun í Vísi við einn besta stjórnsýslufræðing á Íslandi, dr. Bjarna Snæbjörn Jónsson, þar sem hann fer yfir helstu atriði sem góður krísustjórnandi þarf að búa yfir. Það er í fyrsta lagi að vera yfirvegaður og horfa á heildarmyndina og ég ætla ekkert að kvarta yfir því að ríkisstjórnin hafi ekki gert það svo sem, en númer þrjú, hæstv. forsætisráðherra: Hann byggir upp liðsheild. Og nú þar sem við eigum mjög langt eftir í þessari baráttu hvet ég hæstv. forsætisráðherra í fyrsta lagi til að lesa þetta viðtal og í öðru lagi til að efla liðsheild. Ég held að það væri margt vitlausara fyrir ríkisstjórnina en að boða til hugarflugsfundar með fulltrúum stjórnarandstöðunnar.

Í þessum sal er allnokkuð vit, töluverð reynsla, mikil menntun, frjó hugsun sums staðar, þannig að það er ekkert nema vinningur að því fyrir ríkisstjórnina að kalla stjórnarandstöðuna til liðs við sig núna. Stjórnarandstaðan hefur nefnilega gert allt það sem ég nefndi áðan. Hún hefur sýnt samstöðu með ríkisstjórninni vegna þess að hún gengst við lýðræðislegri ábyrgð sinni. Það mun stjórnarandstaðan að sjálfsögðu gera áfram, en ég segi við hæstv. forsætisráðherra: Það er ríkisstjórninni fyrir bestu að kalla til fleiri að þessu verkefni sem er hvergi nærri búið.

Ég ætlaði að segja miklu meira en ég hef ekki tíma til þess. Ég ætla bara að segja við hvern og einn sem stendur núna í stórræðum fyrir okkar hönd, leggur líf sitt í hættu, hvort sem um er að ræða heilbrigðisstarfsfólk, sjúkraflutningamenn, strætóbílstjóra, fólkið í búðunum, kjarasamningslausa lögreglumenn, mig langar til að segja við ykkur með orðum Rúna Júl.., sem hefði orðið 75 ára í gær ef hann hefði lifað, blessuð sé minning hans: Það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig.