150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

framboð og kjör forseta Íslands og kosningar til Alþingis .

719. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér mál fyrir hönd hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem ætlað er að gera mögulegum frambjóðendum til embættis forseta Íslands kleift að safna meðmælum með rafrænum hætti. Nefndin fékk ósk um að taka að sér að gera þetta mál að lögum eins fljótt og kostur er vegna forsetakosninga sem stefnt er að að verði mögulega haldnar komi fram frambjóðendur í sumar. Var okkur að sjálfsögðu ljúft og skylt að verða við þeirri beiðni sem barst frá dómsmálaráðuneytinu svo að hægt yrði að bregðast hratt og örugglega við.

Í nefndinni voru rædd einna helst tvö atriði. Í fyrsta lagi hvers konar lagaákvæði yrði um að ræða og hvort við ættum að setja bráðabirgðaákvæði eða hvort setja ætti almenna heimild í lög til að safna undirskriftum rafrænt. Í öðru lagi í hvaða formi slíkar undirskriftasafnanir gætu átt sér stað og ræddum við um ýmsar tæknilegar úrlausnir á því hvernig hægt væri að gera slíka söfnun rafrænt með öruggum hætti. Sú sem hér stendur er ekki endilega á þeim buxunum að setja eigi eina sérstaka tæknilega lausn inn í lagatexta. Nefndin kom sér strax saman um að æskilegast væri að ákvæði sem þetta yrði gert að bráðabirgðaákvæði í ljósi þess skamma tíma sem við höfum til að standa að þessari vinnu. Ég held að það sé orðin mjög góð vinnuregla á tímum sem þessum að við setjum sem flest af þeim lögum sem við setjum sem bráðabirgðaákvæði til að gefa okkur færi á að rýna það betur þegar ástandið léttist hér á þingi sem og annars staðar, vegna þess að auðvitað er mikilvægt er að viðhafa mjög vandaða vinnu við lagasetningu og þá sér í lagi þegar kemur að lögum um kosningar. En auðvitað var mjög mikilvægt að bregðast við þeirri stöðu sem nú er uppi. Gerð er krafa um söfnun meðmæla til að bjóða sig fram til forseta Íslands á sama tíma og samkomubann er í gildi og yfirvöld hvetja almenning til að halda góðri fjarlægð meðal manna og þess vegna ekki skynsamlegt að fara út á meðal almennings til að safna meðmælum. Því var þessi leið gerð möguleg.

Við komumst að þeirri niðurstöðu og því samkomulagi í nefndinni að setja bráðabirgðaheimildir í lög sem myndu færa ráðherra reglugerðarheimild til að ákveða með hvaða hætti væri hægt að safna undirskriftum rafrænt. Það er því á hendi hæstv. dómsmálaráðherra að ákveða nákvæmlega form og efni rafrænna undirskrifta hjá meðmælendum fyrir frambjóðendur til embættis forseta Íslands.

Þetta er í sjálfu sér hvorki flókið né fyrirferðarmikið mál en mjög mikilvægt viðbragð við því ástandi sem nú er uppi í þjóðfélaginu til að verja lýðræðið en líka til að verja heilsu fólks.

Ég vil árétta að lokum að það að skrifa undir meðmæli fyrir forsetaframboð eða fyrir flokkaframboð eða hvað sem það nú er, er hluti af lýðræðislegu ferli. Það er lýðræðisleg þátttaka almennings sem hér er undir. Framan af hefur það tíðkast að undirskriftum er safnað á pappír og þar er ekki beðið um nein skilríki, alla jafna hefur það ekki verið venjan, og eru því öryggissjónarmiðin við eiginhandarundirritun eða hvað varðar auðkenningu ekki gríðarlega há. Hafa ber í huga við framsetningu og uppsetningu á þessum úrræðum, sem eiga ekki að koma í stað pappírsundirskrifta eða eiginhandarundirskrifta en eiga að vera til staðar samhliða, að takmarka ekki um of getu fólks til að taka þátt eftir því hvaða tæknilegar lausnir fólk kýs að nýta sér hverju sinni.

En að því sögðu, herra forseti, vil ég þakka hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir mjög gott samstarf um þetta mál. Við brugðumst hratt og örugglega við. Ég tel okkur hafa fundið ásættanlega lendingu fyrir alla nefndarmenn, sem var einkar ánægjulegt á tímum sem þessum. Ég þakka hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kærlega fyrir samstarfið og þar sem þetta er frumvarp nefndar reikna ég ekki með að málið rati aftur inn til nefndarinnar nema óskað sé sérstaklega eftir því, en í ljósi þess hversu mikill samhugur og samstaða er um málið þykir mér það ólíklegt.