150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

framboð og kjör forseta Íslands og kosningar til Alþingis .

719. mál
[15:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir vinnuna við gerð þessa frumvarps. Það er mjög mikilvægt að við getum brugðist hratt og örugglega við vegna þess ástands sem hefur skapast í samfélaginu vegna samkomubanna og samfélagstakmarkana sem okkur hafa verið sett. Þetta er ein af þeim breytingum sem við þurfum að klára og ég er því afar ánægð með vinnu nefndarinnar og það frumvarp sem hér liggur fyrir. Ég vil þakka nefndarmönnum sérstaklega fyrir.

Við horfum auðvitað fram á fjölda slíkra nýrra áskorana vegna Covid-19. Við sumum, líkt og þessum, þurfum við að bregðast strax af því að meðmælasöfnun ætti að vera hafin. Ég held varðandi aðgengi almennings að kosningum líkt og þessum, þ.e. forsetakosningunum, verði meðmælin alveg jafn mikilvæg því að söfnunin getur enn farið fram á blaði ef fólk kýs eða finnur leiðir til þess með þeim skilyrðum sem uppi eru varðandi samskipti við fólk en verður þó líka rafræn. Ég held svo sem að það verði framtíðin. Við munum vonandi hafa slíkt ákvæði til framtíðar í lögunum. Þó að þetta sé bráðabirgðaákvæði þá þurfum við auðvitað að skoða þessi lög og fleiri rafrænar breytingar og eðlilegt að þetta sé hægt bæði í sveitarstjórnar- og alþingiskosningum. En það þarf auðvitað síðan að gera breytingar sem munu vera tímabundnar en aðrar koma kannski fyrr fram en þær hefðu annars gert, þarfar breytingar í þágu rafrænnar stjórnsýslu sem er jákvætt. Það er betri þjónusta við almenning og við bindum miklar vonir við það.

Ég var spurð um kosningarnar sjálfar. Ég hef biðlað til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og þríeykisins, eins og við erum farin að kalla það og þekkja í almennu tali, að skoða það, ef þær fara fram, hvernig því yrði háttað, hvort við þurfum að gera einhverjar breytingar á opnun kjörstaða og setja skýrar reglur um það ef forsetakosningar verða í lok júní. Þær gætu þá orðið þegar við erum að stíga inn í annaðhvort annan eða þriðja fasa breytinga eftir því hvernig gengur að aflétta samkomubönnum eins og boðað var í dag. Það er eitthvað sem ég hef beðið þau um að skoða og við erum meðvituð um þetta. Við munum auðvitað passa allar þessar áherslur ef af forsetakosningum verður, miðað við þær takmarkanir sem enn þá verða í gildi á þeim degi.

Síðan er alls konar umræða um skilríkin og ég þekki að sú umræða fór fram í nefndinni. Ég mun útfæra þetta í reglugerð og ég tek bara undir að það verður að vera skýrt, að allir hafi aðgengi að meðmælaskránni og geti nýtt sér þann rétt. Ég þekki ekki nægjanlega vel umræðuna um norræn skilríki en hef verið að skoða að leggja fram frumvarp um nafnskírteini sem er eitt af því sem vantar aðeins skýrar í þá löggjöf sem við erum með. Þau giltu þá í raun eins og ferðaskilríki milli Schengen, til að mynda, og myndu vera aðeins alþjóðlegri. En þetta er allt eitthvað sem verið er að skoða og ég þakka nefndinni fyrir þessa hröðu vinnu og býst við að það verði áfram gott samstarf vegna annarra breytinga sem kunna að koma vegna rafrænnar áherslu og áskorana vegna Covid-19 ekki síst.