151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

viðurkenning á Anfal-herferðinni sem þjóðarmorði á Kúrdum.

592. mál
[19:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Bara örstutt vegna orða hv. þm. Birgis Þórarinssonar um viðurkenningu á þjóðarmorði Tyrkja á Armenum. Það fer vel á því að nefna það í tengslum við þetta mál, vegna þess að þessi þingsályktunartillaga, um þjóðarmorðið á Kúrdum í Anfal-herferðinni, spratt einmitt upp úr umræðu um þingsályktunartillögu um viðurkenningu á þjóðarmorðinu á Armenum. Þá átti hv. flutningsmaður málsins orðastað við manneskju úti í samfélaginu sem sagði: Já, en hér eruð þið að tala um Armena, hvað með Kúrdana? Úr varð þessi þingsályktunartillaga. Nú kemur hv. þm. Birgir Þórarinsson og minnir okkur á þennan uppruna þessarar þingsályktunartillögu, sem er tillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur, sem hefur margoft verið lögð fram, um að viðurkenna þjóðarmorðið á Armenum. Ég held að við ættum bara að taka hv. þingmann á orðinu og leggja það mál fram aftur. Þetta eru systurmál, þau eiga að fara saman í gegnum utanríkismálanefnd. Það færi vel á því að Alþingi myndi á þessum tímapunkti ljúka kjörtímabilinu með því að viðurkenna þessa tvo glæpi og sýna að Ísland er tilbúið til að heiðra minningu þeirra sem féllu og standa vörð um mannréttindi með þeim hætti.

Ég get upplýst hv. þm. Birgi Þórarinsson um að ég er búinn að setja mig í samband við Margréti Tryggvadóttur og spyrja hvort hún sé ekki dús við það að við leggjum málið fram að nýju og það er hún og nú bara einhendum við okkur í það að koma málinu sem fyrst fyrir augu þingsins aftur.