Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:35]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Við ræðum hér gjöld á flugferðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er margstaðfest að þessi fyrirætlun á sér langan aðdraganda og kemur ekki á óvart. Þar sem ferðaþjónustan er ein af okkar stærstu útflutningsgreinum hefði verið ráð að eiga samstarf við aðrar Evrópuþjóðir í sömu stöðu, Möltu, Kýpur og Írland, eða taka virkari þátt í þróun rafeldsneytis fyrir þotur eða haga uppbyggingu ferðaþjónustunnar okkar með öðrum hætti. Leiðirnar til að draga úr áhrifunum eru til staðar. Spurningin er: Hvers vegna hafa þær ekki verið ræddar? Hvers vegna hafa þær ekki verið farnar?

Það kemur heldur ekki á óvart í þessari umræðu að hörðustu andstæðingar Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins nota sér þetta sinnuleysi ríkisstjórnarinnar til að tala niður veru okkar í þessu mikilvæga þjóðabandalagi sem hefur tryggt okkur sögulegar lífskjarabætur, mannréttindi og fullt aðgengi að innri markaði eins stærsta hagkerfis í heimi.

Mig langar líka til að nota tækifærið hér og rifja upp að endurskoðun á fyrirkomulagi losunarheimildanna gagnvart fjarlægum jaðarsvæðum í Evrópu og eyríkjum fór fram árið 2014. Þá sat á forsætisráðherrastóli formaður flokks fyrirspyrjanda. Það er því ekki úr vegi að nota tækifærið og spyrja hv. þingmann sérstaklega hvernig unnið hafi verið að hagsmunum Íslands í alþjóðlegu samstarfi í stjórnartíð hans eigin flokksformanns. Voru menn kannski þá of uppteknir við að skrifa bréf um að Íslendingar hefðu engan áhuga á slíkri þátttöku án samráðs við íslenska þjóð?

Frú forseti. Það er viðvarandi verkefni að gæta hagsmuna Íslands á alþjóðavettvangi. Það fer ekkert á milli mála, og þessi umræða staðfestir það enn fremur, að það gerum við best með fullri aðild á vettvanginum þar sem ákvarðanir eru teknar og í þessu tilfelli í Evrópusambandinu.