Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram og hún dregur auðvitað fram alvarleika málsins. Ég vil fagna því að hæstv. ráðherra hafi lýst því yfir hér áðan að ekki verði lagt fram mál á vorþingi, ef ég skildi það rétt, í ljósi þess að það væri óraunhæft miðað við það hvernig mál stæðu. Þá verður auðvitað að spyrja: Er það þá haustþingið fram undan, vegna þess að reglugerðarbreytingarnar eiga að ganga í gildi 1. janúar 2024? Það þrengir því hratt að ef það á að koma þessu í gegn á haustþinginu.

Ég vil jafnframt fagna því sem hæstv. ráðherra sagði: Gerðin verður ekki tekin upp verði ekki tekið tillit til sérstöðu Íslands. En það setti að mér smáugg þegar hæstv. ráðherra sagði skömmu síðar: Ísland tekur þátt í að vinna að markmiðum stefnunnar, sem sagt „Fit for 55“ stefnunnar. Þetta er auðvitað það sem Evrópusambandið og fulltrúar þeirra munu hanga í: Heyrðu, þið eruð með okkur í þessu, þið verðið bara að taka þátt áfram eins og hingað til.

Skilaboðin verða að vera skýr. Við tökum ekki upp reglur sem eru ætlaðar til þess að troða fólki sem vill ferðast með flugvél inn í járnbrautarlestir. Það eru engar slíkar hér á landi. Skilaboð stjórnvalda gætu allt eins verið að við ættum að ferðast til útlanda með Norrænu. Við tökum ekki upp reglur sem eru ætlaðar til þess að troða fólki sem vill ferðast með flugvél inn í járnbrautarlest. Það eiga að vera skilaboðin. Við höfnum þessari innleiðingu ef undanþága fæst ekki. Hér er talað um að sjónarmiðin séu viðurkennd núorðið, að það sé aukinn skilningur og að árangur hafi orðið á fundunum. En það er ekkert sem bendir til þess að svo sé, í því sem ráðamennirnir segja og gera, rétt eins og er undirstrikað með ferð hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra í þessari viku til Brussel, til að tala máli Íslands í þessu máli. Það bendir ekkert til þess að skilningurinn sé kominn, það er bara þannig.

Eina leiðin til þess að styrkja samningsstöðu okkar í þessum efnum er að tala skýrt. Það þýðir ekki að mæta á fund eftir fund og fagna því að Evrópusambandið hafi loksins staðfest landfræðilega legu Íslands. Hún hefur legið fyrir lengi. Spyrjið bara fólkið sem rekur 66° norður. Ég hef miklar áhyggjur af því að það sé verið að kaupa sér frið, kaupa sér tíma, í þessum efnum til þess að eiga einn fund enn, sjá hvort það náist ekki að eiga samtal við einn embættismann í viðbót í Brussel, ráðherra aðildarríkis eða hvern sem það kann að vera, sem skilur að þetta fari hræðilega illa með íslenska hagsmuni, atvinnulífið muni blæða, heimilin sömuleiðis, túrisminn muni stórskaðast, framboð á flugi muni dragast saman, innlendu flugfélögin verði ekki sjón að sjá ef þau lifi þetta af í þeirri mynd sem við blasir. Þetta er því miður svo alvarlegt að (Forseti hringir.) það róar mig í öllu falli ekki mikið að heyra af því að kontóristar í Brussel taki mönnum vel á kaffifundum og segi: Jú, vissulega er Ísland staðsett þar sem það er. Það eina sem skiptir máli er að árangur náist en leiðin að því er að tala(Forseti hringir.) skýrt og segja: Við höfnum þessu, við innleiðum þetta regluverk ekki, punktur.