131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Löggiltir niðurjöfnunarmenn sjótjóns og sala fasteigna, fyrirtækja og skipa.

484. mál
[17:12]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns og lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál, fengið á sinn fund fulltrúa úr dómsmálaráðuneytinu og jafnframt voru boðaðir á fund nefndarinnar ýmsir umsagnaraðilar.

Með frumvarpinu er ætlunin að samræma ákvæði laga um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns og laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA þykja núgildandi ákvæði um skilyrði um lögheimili til að mega stunda atvinnurekstur fela í sér höft og óbeina mismunun sem ekki fái án réttlætingar samrýmst 31. gr. samningsins um staðfesturétt.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.