136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

ljósleiðarastrengirnir Farice og Danice.

314. mál
[15:03]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Það virðist vera að tveir þingmenn hafi komið upp og borið fram þessa fyrirspurn, annar er Ármann Kr. Ólafsson í þeirri fyrri og í seinni einhver allt annar hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson. Það er rétt að margir tala um að koma til Íslands og byggja gagnaver. Það er rétt að segja við hv. þingmann að það er ekkert hér sem tefur það að gagnaver verði byggð upp á Íslandi, það er ekkert sem tefur það. Það er alheimskreppan, efnahagskreppan, sem tefur það. Nýlegar fréttir úr blöðum um Verne, fyrirtæki sem búið er að gera samning um. Ég sé það að hv. þingmaður hristir höfuðið. Ég las það í blöðum og hann hlýtur að hafa getað lesið það líka og séð það. Þannig að það er ekkert hér heima fyrir sem gerir það að verkum nema kannski efnahagshrunið.

Ég ætla nú bara af virðingu við síðustu ríkisstjórn að fara ekkert að rifja þau mál upp. Það er alveg hárrétt að eignarhaldið er eins og það er. Orkufyrirtækin koma inn í það, það var nauðsynlegt til þess að geta fjármagnað Danice-strenginn, auka hlutafé í Farice. Ég veit alveg hvaða barátta var fyrir því. Það var enginn vilji fyrir því í síðustu ríkisstjórn að leggja beinan pening fram hjá ríkissjóði inn í það heldur var sjálfsagt að peningur kæmi frá orkufyrirtækjunum inn í það enda munu þau líka hagnast vel á því að selja raforku til gagnaveranna.

Ég verð því, virðulegi forseti, að vísa seinni fyrirspurninni og seinni ræðunni frá hv. þm. Ármanni Kr. Ólafssyni til föðurhúsanna. En það er sannarlega rétt að allt það sem hér hefur verið gert, Farice, uppfærsla á Farice sem ég gat ekki um áðan, lagning á Danice, allt eru þetta liðir í því að bjóða og hafa tilbúið fyrir gagnaverin sem geta komið hvenær sem þau vilja, þau eru velkomin þess vegna í dag, en það eru aðrar ástæður sem hindra það en að ríkisstjórnin berjist gegn því. Þessi ríkisstjórn tekur fegins hendi á móti öllum (Forseti hringir.) hvað það varðar en það er efnahagsástandið í heiminum.