141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þetta var ein kostulegasta ræðan sem ég hef heyrt úr þessari átt og þó hef ég heyrt þær ansi kostulegar frá hv. þm. Magnúsi Orra Schram. Hann vogar sér að fullyrða um valkosti kjósenda, að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki valkostur fyrir frjálslynda kjósendur, segir hv. þingmaður. Ja, hérna hér.

Ég skal segja hv. þingmanni að sem betur fer eru kjósendur, hvort sem þeir eru frjálslyndir eða annað, ekki svo skyni skroppnir að þeir geti ekki tekið ákvarðanir fyrir sig sjálfir. Þeir munu ekki horfa á þetta eina mál. Það er sama hvaða skoðanir menn kunna að hafa á Evrópusambandinu, það er óvart bara eitt af viðfangsefnum stjórnmálanna. Kjósendur, frjálslyndir kjósendur sérstaklega, munu frekar horfa til þess hvað flokkarnir ætla að gera í uppbyggingu atvinnulífsins, í skattamálum og velferðarmálum. Hvaða stefnu hafa þessir flokkar? Það sem meira er: Hvað hafa flokkarnir verið að gera síðustu fjögur árin? Ætlar einhver hér inni að halda því fram að Samfylkingin, ef við dæmum hana af verkum hennar síðustu fjögur árin, sé frjálslyndur flokkur? Nei, Samfylkingin hefur aldrei verið lengra til vinstri en núna. Hún er reyndar ekkert sérstaklega gamall flokkur en vinstri flokkur hreinn og beinn er Samfylkingin og hefur verið síðustu fjögur árin. Hún hefur hækkað skatta, hún hefur þvælst fyrir atvinnulífinu og ef hv. þingmaður ætlar að segja að atvinnulífið sé að kalla eftir stefnu Samfylkingarinnar er hann algjörlega á villigötum.

Atvinnulífið og íslenskur almenningur er búinn að fá leið á skattstefnu og allri þeirri pólitík sem núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa ekki bara boðað heldur framkvæmt. (Forseti hringir.) Ég skora á hv. þm. Magnús Orra Schram að líta upp úr ESB-boxinu. Það er mikilvægt mál en það er ekki eina málið á dagskrá, hv. þingmaður.