141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla örstutt að vekja athygli á því að fáir dagar eru eftir af starfsáætlun þingsins. Mér reiknast svo til að eftir séu sjö þingfundadagar og fjórir nefndadagar. Í gær komu ný þingmál frá hæstv. ríkisstjórn og af tali manna má ráða að fleiri stórmál séu á leið inn í þingið af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Á sama tíma er sú staða uppi að fjölmörg stór mál eru til meðferðar í nefndum þingsins og ég vek athygli bæði hæstv. forseta og hv. þingmanna á því að það er gersamlega útilokað að þessi mál nái öll fram að ganga. Eina vitið fyrir ríkisstjórnarmeirihlutann á þingi, ef um meiri hluta er að ræða, það er dagamunur á því hvort svo er eða ekki, vilji ríkisstjórnarflokkarnir koma einhverjum málum í gegn er eins gott að þeir fari að forgangsraða og beini þá kröftunum að einhverjum skynsamlegum málum sem unnt er að ná samstöðu um, einhverjum breytingum sem raunverulega liggur á, einhverjum málum fyrir þjóðina í landinu í staðinn fyrir að eyða tímanum hér dag eftir dag í einhver gælumál sem við getum kallað svo. Við getum líka kallað þau hugmyndafræðileg mál sem hafa ekki neinn snertiflöt við fólkið í landinu.