143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Hlutverk okkar þingmanna í þessu máli er að meta hvort væntanleg lög standist stjórnarskrá. Ef þau gera það ekki eigum við ekki að samþykkja frumvarpið. Síðan þurfum við að skoða hvort lagasetningin sé nauðsynleg, hvort hægt sé að fara aðrar leiðir en að setja lög hér.

Ef við setjum þessi lög núna má spyrja sig hvort það sé varanleg lausn. Gætum við sett einhver önnur lög sem leystu vandamálið varanlegar? Við þurfum líka að horfa til þess.

Byrjum á stjórnarskránni sem við erum öll eiðsvarin að halda. Þar kemur skýrt fram og kom fram í máli Bjargar Thorarensen fyrir nefndinni að verkfallsrétturinn er varinn í stjórnarskrá Íslands, byrjum á því. Dómstólar segja svo við hvaða kringumstæður megi ganga á þann rétt, megi takmarka þann rétt. Dómstólar segja að til þess að takmarka megi þann rétt þurfi að vera ríkir almannahagsmunir annars vegar og hins vegar efnahagsleg vá. Þá spyr maður sjálfan sig: Er það svo nú? Þeir benda líka á að það verður að vera rökstuðningur fyrir því að þetta séu kringumstæðurnar í lögskýringargögnunum þannig að við förum í lögskýringargögnin og skoðum hvort þau rök sem eru fyrir þeirri aðgerð að ganga á verkfallsréttinn, sem er stjórnarskrárvarinn sé að finna í lögskýringargagninu.

Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta er samið vegna verkfallsaðgerða Sjómannafélags Íslands á Herjólfi VE sem hófust frá og með 5. mars sl. Aðgerðirnar fela í sér að vinna er stöðvuð frá klukkan 17:00 síðdegis og til klukkan 08:00 árdegis virka daga og alfarið um helgar. Frá og með 21. mars sl. hefur verkfall einnig verið á föstudögum og er því aðeins siglt fjóra daga vikunnar.“

Byrjum á því að þetta er ekki allsherjarverkfall. Þetta er verkfall á yfirvinnu og svo eru föstudagarnir teknir út.

Hvaða óþægindum hefur það valdið? Uppfyllir þetta kröfur um að verulega og ríka almannahagsmuni sé að ræða eða efnahagslega vá? Þá skulum við taka það sem kemur fram í lögskýringargagninu. Þar stendur, með leyfi forseta:

„… hefur verkfallið því neikvæð áhrif á atvinnustarfsemi í Eyjum …“ Það er náttúrlega ömurlegt staða sem komin er upp þarna. Það er ekki öfundsvert að búa í Eyjum við þessar kringumstæður. Svo heldur áfram, með leyfi forseta:

„… að ógleymdum áhrifum á íbúa sem reiða sig á Herjólf til að sækja nauðsynlega þjónustu til lands.“

Þá komum við að nauðsynlegri þjónustu. Ef ekki er hægt að tryggja almenna heilsugæslu fólks mundi ég segja að það væru almannahagsmunir. En þá er spurningin hvort við getum ekki gert eitthvað annað til að tryggja heilsugæslu fólksins í Eyjum, að heilsu þess sé gætt með sama hætti og hægt er að gera í Reykjavík. Væri hægt að setja út báta sem gætu tryggt samgöngur þó að Herjólfur fari ekki með sömu tíðninni? Væri hægt að senda út þyrluna? Það mundi vissulega kosta en við erum að tala um hvort við höfum heimild til að setja lög vegna ríkra almannahagsmuna eða efnahagslegrar vár.

Höldum áfram lestrinum um hvaða ömurlegu aðstæður þetta skapar fyrir Eyjabúa. Þetta þýðir lægra verð á fiski af því að hann þarf að bíða. Það þýðir að störf kunna að tapast. Með leyfi forseta:

„Þetta hefur þær afleiðingar að eingöngu er siglt eina ferð á dag á virkum dögum og ekkert um helgar. […] skaðinn orðinn verulegur og óþægindin mikil. […]

Fiski er síður landað hér“ — þetta kemur úr bókun bæjarráðs sem er sett í greinargerðina — „enda nánast vonlaust að koma afurðum á markað, ferðaþjónusta er stopp, framleiðsla fyrirtækja á ferskvörumarkaði stendur tæpt, íþróttalið verða fyrir miklum kostnaði og verða jafnvel að draga lið sín úr keppni, almennir bæjarbúar líða hvern dag. Ljóst er að verkfallið hefur þegar haft áhrif á atvinnuöryggi og ferðafrelsi Eyjamanna almennt.“

Svo komum við að þessu, með leyfi forseta:

„Rekstur Herjólfs er á ábyrgð ríkisins. Ríkisstjórn og Alþingi getur því ekki leyft sér að skila auðu þegar ástandið er eins og það er nú.“

Hvað á þá að gera ef rekstur Herjólfs er á ábyrgð ríkisins og svona staða kemur upp? Það kom líka fram í nefndinni að það væri mjög óþægileg staða. Það er greinilega ákveðinn galli í kerfinu sem hefur ekki verið fyrirbyggður, brotalöm sem þýðir að við erum komin með lítil félög sem geta nýtt sér þennan verkfallsrétt, sem eru í lykilstöðu með óbilgjarnar kröfur. Hvort sem það á við í þessari deilu eða ekki er þetta ákveðinn vandi. Þegar kemur að rekstri á Herjólfi sem á að vera á ábyrgð ríkisins er það eins og þingmenn hafa sagt í þessum sal í dag og núna rétt í þessu: Þetta varðar almannahagsmuni, hvers vegna er þá einkafyrirtæki að reka þetta? Hvers vegna er þá þessum aðilum leyft að fara í verkfall? Lögreglunni er ekki leyft það. Hvers vegna hafa þessir aðilar heimild til að fara í verkfall? Þarf kannski að takmarka þá heimild ef það að fara í verkfall varðar almannahagsmuni? Það þarf að skoða ef þetta varðar almannahagsmuni og það er það sem við erum að fara í gegnum.

Höldum áfram að skoða hvaða óþægindi og ömurlegu kringumstæður þetta skapar fyrir Eyjamenn. — Nei, það er komið.

Nú ætti alþjóð að spyrja sig hvort þær kringumstæður sem lýst er í greinargerðinni uppfylli kröfur dóms Hæstaréttar frá 2002 um að þetta séu ríkir almannahagsmunir eða efnahagsleg vá. Gleymið ekki að það sem verið er að kalla eftir er réttlæting til að ganga á stjórnarskrárvarin réttindi. Er þetta réttlæting fyrir því?

Þetta er það sem við þingmenn eigum að taka afstöðu til.

Fleira það sem kom fram á nefndarfundinum er nákvæmlega að verkföllum er ætlað að hafa áhrif. Þetta kom fram hjá Björgu Thorarensen, verkföllum er ætlað að hafa áhrif á almannahagsmuni. Það er mögulega hægt að túlka þetta sem almannahagsmuni og margir gera það, en eru þetta ríkir almannahagsmunir sem réttlæta það að ganga á stjórnarskrárvarinn rétt til verkfalla? Verkföllum er ætlað að hafa áhrif á almannahagsmuni til að ýta mönnum að samningaborðinu. Það sem skiptir máli er að til staðar séu ríkir almannahagsmunir og gögn þurfa að sýna fram á að þeir séu til staðar og afdráttarlaus rök þurfa að koma fram í frumvarpinu. Eftir að hafa farið fljótt í gegnum það sá ég það ekki.

Nú er ég búinn að lesa upp fyrir alþjóð, sem getur náttúrlega líka lesið það sjálf, hvaða óþægindum þetta veldur og ömurlegum kringumstæðum. Það er ömurlegt að sex aðilar geti skapað svona kringumstæður en þannig er þetta í lögunum. Menn hafa farið af stað á grundvelli þeirra laga og stjórnarskrárvörðu réttinda og tjaldað til og ef þetta frumvarp verður samþykkt, ætlar ríkið þá að borga þeim skaðabætur fyrir að þeir hafi farið af stað á grundvelli réttar sem er stjórnarskrárvarinn sem er síðan tekinn af þeim með lögum eftir að hafa farið af stað að nýta sér hann? Ætlar ríkið að greiða þeim skaðabætur fyrir það sem þeir hafa þurft að kosta til í baráttu sinni? Þetta er spurning, en það er algjör réttindakrafa þar.

Eftir að hafa farið í gegnum þetta og hlustað á rök í nefndinni sé ég að frumvarpið er klárlega ekki nógu vel unnið. Þar er hvergi talað um ríka almannahagsmuni, hvergi um efnahagslega vá. Já, þetta er ömurlegt ástand en við þingmenn eigum að fylgja stjórnarskránni og dómar Hæstaréttar segja að það þurfi að vera ríkir almannahagsmunir og efnahagsleg vá.

Hvernig var þetta sagt í dómnum? Það var sagt að sú vinnustöðvun gæti valdið óbætanlegu tjóni fyrir þjóðarbúið í heild. Hér væru því ríkir almannahagsmunir í húfi.

Um það er ekki að tefla í þessu tilfelli.