143. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[00:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við þingmenn Bjartrar framtíðar höfum vegið þetta og metið. Okkur finnst þetta alls ekki einfalt mál og ég held að enginn geri það að gamni sínu að setja lög á verkfall eða yfirvinnubann.

Ég held að engum dyljist að það er mjög slæmt ástand í Vestmannaeyjum. Ég held að það mundi koma annað hljóð úr strokknum ef samgöngur við höfuðborgarsvæðið yrðu hlutfallslega jafn mikið skertar og í Vestmannaeyjum núna.

Við höfum ríkan skilning á þessu frumvarpi. Hins vegar finnst okkur vanta svolítið upp á rökstuðninginn, sérstaklega út frá álitaefni tengdu stjórnarskrá. Einnig er spurning hvort aðrar leiðir séu fyrir hendi. Því treystum við okkur ekki til að styðja málið en við viljum hins vegar ekki leggjast gegn því. Við leggjum áherslu á að hér er um að ræða frestun á verkfallsaðgerðum og við hvetjum deiluaðila til að nýta þann frest til að komast að niðurstöðu en við ætlum að sitja hjá í þessu máli.