144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:36]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er ánægjulegt að mælt sé fyrir tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er sérstaklega ánægjulegt að fjórir flokkar standi að þeirri ályktun en mikið hefði verið indælt ef þeir hefðu verið sex, þeir hinir sömu flokkar og ég tók þátt í að greiða atkvæði með um mjög sambærilegar tillögur á síðasta kjörtímabili. Eins mikilvægt og mér finnst að við förum í þessa vegferð er það áhyggjuefni að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi enn sem komið er aðeins upp á pallborðið hjá minni hlutanum, mér finnst það mjög skringilegt. Ég skil ekki af hverju það er ótti við að kalla eftir áliti frá þjóðinni.

Ein rök sem hafa komið fram, og ég skil þau rök ágætlega, í tengslum við nákvæmlega þessa tillögu til þingsályktunar, sem hefur verið lögð ansi oft fram með mismunandi greinargerðum hér á þingi undanfarin ár, eru að ekki sé hefð fyrir því í öðrum löndum sem hafa sótt um aðild að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort fara eigi í aðildarviðræður. Þjóðaratkvæðagreiðslan hefur yfirleitt verið bindandi um hvort ganga skuli í Evrópusambandið eða ekki. Ég held, af því að við erum þannig þjóð, að það væri mjög gott fyrir okkur að fá að fara þá sértæku og sérstöku leið þar sem þjóðin sjálf tekur ákvörðun um það hvort hún vill fara í þá vegferð, því að annars mun þetta verða mál sem flækist fyrir okkur í staðinn fyrir að snúast um leiðina sem við ætlum að fara eða ekki fara.

Nú er talað um ástæðuna fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir séu á móti því að fara í þá vegferð að heimila þjóðinni að taka ákvörðun um það hvort við ætlum að halda áfram eða ekki, sem mundi að sjálfsögðu gefa hvaða ríkisstjórn sem væri við völd mjög skýr fyrirmæli um hvað ætti að gera. Ef ríkisstjórn treystir sér ekki til að framfylgja þjóðarvilja er það ósköp einfaldlega þannig að þeirri ríkisstjórn ber að víkja.

Ég hef verið í þeirri skemmtilegu stöðu að vera alltaf í minni hluta og mig langar til upprifjunar fyrir þá þingmenn sem áttu ef til vill ekki sæti hér á síðasta kjörtímabili að minna á að það var þvinguð fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hið víðfræga Icesave-mál, þjóðaratkvæðagreiðsla sem var í eðli sínu öðruvísi af því að henni var komið á að frumkvæði forseta Íslands, ekki forseta þingsins, og þar af leiðandi var sú þjóðaratkvæðagreiðsla bindandi. Ríkisstjórnin sem þurfti að fara eftir þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu ákvað í staðinn fyrir að virða ekki þjóðarviljann, og þurfa þar af leiðandi væntanlega að segja af sér, að virða það sem þjóðin kallaði eftir í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu og málið var unnið á mjög sérstakan hátt á Alþingi. Það var mjög góð og þverpólitísk vinna sem átti sér stað á Alþingi í tengslum við að tryggja að samningurinn yrði þess eðlis að hann væri þjóðinni ekki til háska.

Mér þótti gríðarlega merkilegt sem nýjum þingmanni að fá að taka þátt í slíku starfi þar sem þingið var í raun þvingað til að vinna saman. Því miður er það allt of sjaldgæft. Þess vegna held ég að þetta væri gífurlega gott fyrir okkur þingmenn, alla vega segjast allir þingmenn einhvern tíma, út frá því hvar þeir eru staðsettir, í minni hluta eða meiri hluta, vera fylgjandi því að kalla eftir áliti þjóðarinnar. Því held ég að það væri mjög gott að við kölluðum eftir áliti þjóðarinnar og ef svo færi að þjóðin vildi að héldum aðildarviðræðunum áfram værum við sett í þá stöðu að þurfa að framfylgja þeim vilja, sem hlýtur að vera hlutverk okkar á Alþingi, að framfylgja því sem þjóðin kallar eftir. Þess vegna hef ég verið mikill stuðningsmaður beins lýðræðis og aukinnar aðkomu almennings að ákvarðanatöku er varðar hagsmuni hans. Ég held að ekkert væri okkur eins hollt og að fá reglulega skýra leiðsögn um hvað það er sem við eigum að vinna saman að fyrir heildarhagsmuni þjóðarinnar.

Ef þjóðin telur að hún þurfi að fá að leiða þetta mál til lykta þannig að hægt sé að sjá hver endanleg niðurstaða samningsviðræðnanna er þá þurfum við að gera það. Ég sat eiginlega alla fundina sem vörðuðu þessar þjóðaratkvæðagreiðslur af því að ég sat í utanríkismálanefnd og í sameiginlegri nefnd Evrópuþingsins og íslenska þingsins um framgang aðildarviðræðnanna. Ástæðan fyrir því að grunnurinn að þessari ályktun og málsmeðferð á sínum tíma var svona góð var að við fengum bæði þá sem eru hlynntir aðildarviðræðum og líka þá sem eru ekki hlynntir þeim til að koma fram með bestu mögulegu aðferðafræðina við það hvernig við getum náð góðum samningum. Það er oft þannig að ef maður vill ekki eitthvað getur maður náð alveg gríðarlega góðum samningum af því að þá er sá sem vill semja við mann enn fúsari til þess að gefa eftir í samningaviðræðunum, sem hlýtur að vera þjóðinni til góða.

Segjum sem svo að það gerist að þjóðin vilji ekki halda áfram, þá verða hinir sem eru mjög hlynntir aðildarviðræðunum að hlíta þeim vilja. Mér finnst mjög mikilvægt að alveg sama hvað gerist í þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna, ef við berum gæfu til að láta það verða að veruleika, sem mér finnst reyndar ósennilegt því að mér finnst ólíklegt að þeir fjöldamörgu þingmenn sem eru í núverandi stjórnarmeirihluta en voru þá í minni hluta muni styðja þetta mál og það truflar mig gríðarlega mikið. Ég skil ekki hvernig hægt er að leggja fram mál á einu þingi og berjast fyrir því að það verði að veruleika og síðan á næsta kjörtímabili þegar menn eru í annarri stöðu eru þeir ekki fylgjandi því, þá vinna þeir ekki að framgangi þess á þinginu. Það finnst mér hræsni, ef ég má segja svo grófan hlut hér í pontu.

Síðan skulum við ekki gleyma því að við erum með lifandi ferli sem er lífrænt þegar kemur að aðildarviðræðunum, ástandinu á Íslandi og ástandinu í Evrópu og líka ástandinu með EES-samninginn. Við erum í þeirri stöðu að vera að vandræðast með þann samning og að einhverju leyti innleiðum við alls konar lög og reglugerðir sem mundu ekki beint falla undir efnahagssamning, að mínu mati, heldur mun víðtækari lagasetningar. Þær eru margar hverjar mjög góðar en margar hverjar mjög skrýtnar og eru á einhvers konar evrópsku Brussel-máli sem ég held að enginn skilji. Mér finnst að ef við ætlum að halda áfram að njóta þess að vera á Evrópska efnahagssvæðinu þurfum við að leggja meira í að tryggja að vinnan við að undirbúa þær gerðir sé almennileg og þetta sé almennilega þýtt. Við eigum að hafa góðar og öflugar þýðingardeildir og lobbíista í Brussel því að þótt rödd okkar heyrist eitthvað er hún er ákaflega mjó og veikróma og við höfum lítil áhrif eins og staðan er í dag.

Ég vil skora á alla þá þingmenn sem tóku þátt í að leggja fram og reyna að greiða fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum á síðasta kjörtímabili að gera eins og ég (Forseti hringir.) og styðja málið, hver svo sem er við stjórn.