144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:00]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að ræða aðeins tillöguna sem liggur fyrir. Ég held að við getum verið sammála um að þetta mál sé eitt af stóru málunum sem hafa komið til þingsins, alveg frá því að það var fyrst lagt fram hér. Hugmyndir og hugsanir fólks um það hvort Íslandi sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins hafa klofið bæði þjóðina og hinar pólitísku hreyfingar, eins og við höfum orðið áþreifanlega vör við á þingi.

Það hefur verið þannig síðustu missiri að meiri hluti þjóðarinnar telur að við eigum að klára viðræðurnar úr því sem komið er og leggja fyrir þjóðina samning svo að hún geti tekið upplýsta afstöðu. Ég get sjálf ekki sagt annað en að það er ævinlega betra að taka afstöðu þegar niðurstaða liggur fyrir eða alla vega viðunandi upplýsingar svo að maður þurfi ekki að geta sér til um niðurstöðuna.

Á sínum tíma féllumst við vinstri græn á þá hugmynd að hafnar yrðu aðildarviðræður milli Íslands og Evrópusambandsins með það að markmiði að kannaðir yrðu kostir þess og gallar að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu. Það var þó með því fororði að aldrei yrði um aðildina að ræða án þess að hún hefði áður verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ágætt í því samhengi að rifja upp að í febrúar, minnir mig, árið fyrir kosningar voru 37,6% þeirra sem þá sögðust ætla að kjósa Vinstri græna hlynnt aðild, ekki bara aðildarviðræðunum, en hins vegar voru það 55,5% þeirra sem ætluðu að kjósa VG. Eins og fyrir liggur vitum við að stefna flokksins er sú að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan sambandsins en innan en á þeim tíma virtist sem hinn almenni kjósandi byggði ekki ákvörðun sína á þeirri afstöðu. En það er líka oft þannig að það heyrist ekki endilega í þeim sem eru tilbúnir til að skoða málin heldur mest í þeim sem harðasta hafa afstöðuna og það á við um þetta mál eins og svo mörg önnur.

Það hefur ekki verið minni hreyfingu auðvelt að þurfa að vinna að eins góðum samningi og hægt er og hafa á sama tíma efasemdir um aðildina. En við töldum að lýðræðisrökin væru sterkari en ákvörðun einstakra stjórnmálamanna í jafn umdeildu máli og það virðist vera, eins og ég rakti áðan.

Sú sem hér stendur hefur haft þá skoðun að Evrópusambandsaðild sé ekki endilega vænlegur kostur fyrir okkur Íslendinga. Margir félaga minna í Vinstri grænum eru sama sinnis en það eru einhverjir á öðru máli, eins og gengur og gerist. Við höfum hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að engin leið sé betri eða réttari til að komast að niðurstöðu um þetta mikla álitamál en lýðræðislegt og opið ferli þar sem nægar upplýsingar eru lagðar fram og sem lýkur með þjóðaratkvæði.

Ég hef sagt það og sagði á sínum tíma að sem þingmaður hér inni tel ég mig vera fulltrúa þeirra sem eru í flokknum mínum og þeirra sem kusu okkur og ég tel að það eigi við um alla þingmenn. Við erum ekki aðeins fulltrúar okkar sjálfra af því að þegar við förum fram förum við auðvitað fram undir ákveðnum formerkjum sem hreyfing eða flokkur og við vitum að það eru ekki allir með nákvæmlega sömu skoðun á öllum málum innan flokksins. Við samsömum okkur á einhverjum tilteknum stað, af því að eitthvað stendur okkur næst af því sem í boði er í pólitíkinni og svo beygjum við okkur undir meiri hluta hverju sinni.

Þess vegna getur það skipast þannig að þeir sem sitja á þinginu eru ekki samþykkir aðildarumsókn eða því að ganga í ESB, en ég tel að við eigum að vera fulltrúar þeirra innan flokka okkar sem kjósa að slíkt verði gert alveg eins og hinna. Við vinstri græn treystum þjóðinni til að ráða niðurstöðunni og ég held að komið hafi vel fram í máli margra í dag að það er eitthvað sem við eigum að stefna að. Ég tel að eðlilegast hefði verið að leggja það í dóm þjóðarinnar í upphafi og áður en viðræðurnar hófust hvort leggja ætti í þá vegferð að semja um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ákvörðunin um aðildarviðræðurnar var og er svo stórt mál og viðamikið að þjóðaratkvæðagreiðsla í upphafi hefði átt vel við og hefði styrkt málið. En það var ekki gert og til lítils að sýta það nú.

Við sem hér erum, þjóðkjörnir fulltrúar á þjóðþingi lýðræðisríkis, ættum síst allra að víkja okkur undan lýðræðinu. Við ættum ekki að hindra landa okkar í því að leiða eitt af mikilvægum málum samtíðarinnar til lykta með atkvæðum sínum. Við eigum að hafa hugrekki og einurð til að láta aðildarviðræðurnar halda áfram eins og til var stofnað og hlíta niðurstöðu þjóðarinnar um málið.

Hæstv. forseti. Það hefur verið svolítið kyndugt á stundum að hlusta á hv. þingmenn túlka útsýnið til Evrópusambandsins hver fyrir öðrum og geta sér til um niðurstöðu viðræðna. Það staðfestir enn frekar þá skoðun mína að málinu máli ljúki ekki eftir þessa umræðu, ekki frekar en áður, þrátt fyrir þá tillögu sem var lögð fram síðast um að málinu yrði slitið eða þessa tillögu hér um þjóðaratkvæði því að ég hef því miður efasemdir að hún verði samþykkt. Ég spyr mig: Erum við þess umkomin að ákveða niðurstöðu í viðræðum sem ekki hafa átt sér stað? Það virkar á mig eins og unglingur sem veit að hann verður skammaður fyrir eitthvað og er búinn að fara með málsvörnina sína í huganum og einnig svör foreldris fyrir fram.

Sumir í hópi þingmanna telja að Ísland geti átt kost á ýmsum sérlausnum sökum sérstöðu sinnar en aðrir taka þvert fyrir það. Sumir þingmenn hafa eytt í þetta talsverðri orku og viðrað spádómsgáfu sína um úrslit ýmissa mála. Það er sjálfsagt allt í góðri meiningu gert en leiðir hins vegar ekki til neins og verður að benda þeim hv. þingmönnum á að eina leiðin fyrir þá til að fá botn í vangaveltur sínar er að tekin verði ákvörðun um að ljúka viðræðunum og síðan er hægt að taka afstöðu til þess sem út úr þeim kemur, ekki að slíta viðræðum og geta sér til um niðurstöðu. Ég tel að allir, bæði aðildarsinnar og þeir sem ekki, alls ekki, vilja ganga í ESB séu þess fullmeðvitaðir að um er að ræða ríka hagsmuni fyrir íslenska þjóð, en öll sjónarmið eiga rétt á sér og við getum ekki leyft okkur að gera lítið úr andstæðum málsrökum og tilfinningum sem tengjast málinu.

Virðulegi forseti. Auðvitað er álitamál hvort ávinningurinn af aðild sé slíkur að hann vegi upp eða réttlæti valdaframsal. Vissulega hefur verið bent á að ekkert aðildarríkja Evrópusambandsins, sem nú eru orðin 27, telur sig ósjálfstætt eða ófullvalda ríki vegna aðildarinnar, eins og látið var að liggja í þeirri umræðu sem átti sér stað fyrr á þessu þingi. Ákvörðun af þessu tagi er hins vegar þess eðlis að hana getur þjóðin tekið og hún á að taka hana. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ríkisstjórnin og sá þingmeirihluti sem að henni stendur hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að aðild að Evrópusambandinu komi ekki til greina fyrir Ísland en nú þarf að svara fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem lofað var um málið, sem margir kjósendur, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, telja sig vera hlunnfarna um vegna þeirrar ákvörðunar sem ríkisstjórnin hefur tekið. Ég hef áður vitnað í kosningayfirlýsingar Sjálfstæðisflokksins þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Kjósendur ákveði í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram.“

Það er ekki hægt að misskilja þetta og má velta fyrir sér hvort loforðið er aðeins spurning um orðalag eða eintómur misskilningur. Það væri þá ekki sá fyrsti sem þessi ríkisstjórn þarf að fást við.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að umræðan um Evrópumálin festist ekki í kappræðum andstæðra póla. Það geta legið í því sóknarfæri að sjá endanlegan samning. Margir hafa reiknað með því að í samningi felist ýmislegt gott, jafnvel það gott að hægt sé að leggja það að jöfnu við sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar í ákveðnum málaflokkum. Með því að klára samningaferlið er hægt að fá úr því skorið og þannig meta kosti og galla þess samnings sem þá liggur fyrir.

Það liggur fyrir að meiri hluti þjóðarinnar vill klára viðræðurnar. Ég tel að við þingmenn getum ekki sagt að við viljum eða viljum ekki fyrr en eitthvað formlegt liggur fyrir sem hægt er að taka afstöðu til. Aðild er stærri en ríkisstjórn eða stjórnmálaflokkar og þjóðin á að gefa leiðbeiningar um hvað skuli gera. Mál sem þetta, sem virðist endalaust vera til umræðu, ekki einungis fyrir kosningar heldur eftir kosningar eins og við höfum ítrekað orðið vör við, þarf að leiða til lykta á annan hátt því að stór hluti þjóðarinnar er augljóslega ekki sáttur við það ferli sem hefur verið viðhaft.

Í lýðræðisþjóðfélagi eru sameiginlegar ákvarðanir þær ákvarðanir sem sátt skapast um. Að efna aðeins til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar ráðamenn telja að niðurstaðan verði þeim þóknanleg felur í sér hugleysi gagnvart lýðræðinu og vantraust á dómgreind landsmanna.