144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson, þáverandi þingmaður, sem lagði fram þá ágætu breytingartillögu við þingsályktunartillöguna, sem var lögð fram upphaflega, um umsókn að ESB, að leggja málið í dóm þjóðarinnar. Einn af þeim hv. þingmönnum, þáverandi sem núverandi, sem greiddu atkvæði með þeirri tillögu var samflokksmaður minn Birgitta Jónsdóttir, hv. 12. þm. Suðvesturkjördæmis. Það er einmitt vegna þess að þetta mál á heima hjá þjóðinni.

Jú, gott og vel. En nú er ljóst að þjóðin vill kjósa um þetta. Og aftur: Það er sama hvaða mælikvarði er notaður. Ef við notum fylgi stjórnarflokkanna úr síðustu kosningum verðum við að miða við kosningaloforðin; samkvæmt því vill þjóðin þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef við miðum við skoðanakannanir; samkvæmt því vill þjóðin þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef við miðum við undirskriftir — og þá velti ég fyrir mér hve óskaplega háan staðal hið háa Alþingi ætti að miða við þegar draga ætti mörk um það hvenær setja eigi mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá velti ég fyrir mér: Er 22,5% ekki svolítið hár staðall? Menn tala oft um 10%, jafnvel minna. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson talar um 2% sem ég er mjög hrifinn af og hlakka til að ræða það betur seinna. En þegar 22,5% duga ekki, hvað í ósköpunum dugar þá? Ef þetta á ekki heima í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvað á þá heima í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það er alveg sama hvaða mælikvarða við notum.

Það framferði sem hv. þingmaður varði hér í pontu — þá á ég við framferði hæstv. utanríkisráðherra, þessa bréfasendingu, vitandi, að því er virðist, að hann kæmi þessu ekki gegnum þingið, vitandi, að því er virðist, að þjóðin mundi aldrei greiða atkvæði í samræmi við hans eigin skoðun, þá gerir hann þetta af sjálfsdáðum, gerir þetta upp á eigin spýtur vitandi að það er þvert á alla lýðræðislega ferla alla, þingkosningar, þjóðaratkvæðagreiðslu, skoðanakannanir, skiptir engu máli. Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður mundi ganga frá þessu máli, fyrst það er hingað komið, á einhvers konar lýðræðislegan hátt.