144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Nú er þar komið sögu að aðildarviðræðurnar sem Alþingi tók ákvörðun um 16. júlí 2009 að hefja eru í uppnámi.

Ég ætla að fara í stuttu máli yfir hvernig þessi saga er. Við samþykktum hér þingmenn úr öllum þingflokkum að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hefja aðildarviðræður. Það eru 28 ríki í Evrópusambandinu. Ekkert þeirra hefur haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja eigi um aðild, enda er ekki um þjóðréttarskuldbindingu að ræða. Flest þessara ríkja, langflest, ég treysti mér ekki til þess að segja öll því ég er ekki viss um að það sé rétt, hafa haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort samþykkja ætti samninginn sem fyrir lá og gerast aðili að sambandinu. Dæmi eru um að slíkur samningur hafi verið felldur og það í tvígang og það eru frændur okkar Norðmenn sem gengu þannig til verka. En við ákváðum sem sagt að hefja samningaviðræður og tekin var ákvörðun um það á Alþingi. Síðan var hægt á viðræðunum í aðdraganda kosninga og svo tók ný ríkisstjórn við.

Forusta Sjálfstæðisflokksins, sem einn hv. þm. Sjálfstæðisflokksins kallaði áðan „nokkra oddvita“, en það voru sem sagt allir ráðherrarnir, að undantöldum núverandi innanríkisráðherra sem var ekki í framboði, og þar með talinn formaður flokksins, hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, og fyrrverandi innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir og varaformaður flokksins lofuðu opinberlega að framhald málsins skyldi ákveðið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þegar við vorum að ræða málið hér vorið 2014 út frá skýrslu sem hafði verið unnin fyrir ríkisstjórnina um Evrópumál og stöðu viðræðnanna, kom slitatillaga eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þá brjálaðist allt. Austurvöllur fylltist dag eftir dag af kjósendum sem voru ósáttir við að svona væri gengið á bak loforða. Safnað var 53.555 undirskriftum til þess að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna. Samkvæmt skoðanakönnunum vilja 80% fá að greiða atkvæði um framhald viðræðnanna.

Afstaða manna til aðildar að Evrópusambandinu er mjög mismunandi. Umtalsverður hópur vill ganga í Evrópusambandið og umtalsverður hópur vill það alls ekki. Svo er stór hópur fólks sem vill að samningur liggi fyrir þannig að það geti mótað sér afstöðu á grundvelli þeirra upplýsinga. Formenn flokkanna í minni hluta og við þingmenn í þeim flokkum leggjum því til að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla 26. september næstkomandi þar sem fólk fái að greiða atkvæði um spurninguna, með leyfi forseta:

„Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“

Svo á fólk að svara já eða nei.

Þetta er eitt stærsta hagsmunamál okkar til framtíðar. Hér erum við að svara kalli meiri hluta kjósenda (Forseti hringir.) á Íslandi. Ég endurtek orð mín frá því fyrr í dag: Ég vona að þessi tillaga komi (Forseti hringir.) sem fyrst til síðari umr. svo við getum greitt atkvæði um hana.