145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

samstarf við Grænland og Færeyjar um sjávarútvegsmál.

77. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar vegna tillögu til þingsályktunar um að styrkja samstarf við Grænland og Færeyjar um sjávarútvegsmál.

Nefndin hefur fjallað um málið á tveimur fundum og fengið á sinn fund Unni Brá Konráðsdóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Ingu Dóru Markussen, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, Vilborgu Ásu Guðjónsdóttur, alþjóðaritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Á síðari fund nefndarinnar til umfjöllunar um þessi mál voru fengnir aðilar úr stjórnkerfinu; Högni S. Kristjánsson, Bergþór Magnússon og Ragnheiður Harðardóttur frá utanríkisráðuneytinu, Sigurbergur Björnsson frá innanríkisráðuneytinu og Sigurgeir Þorgeirsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Líkt og fram kemur í tillögunni sjálfri er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að styrkja samstarf við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um sjávarútvegsmál til að nýta til fulls þá sérstöðu sem Vestur-Norðurlönd hafa augljóslega á þessu svæði og við þekkjum svo vel hvað varðar sjávarútveg. Lagt er til að kannað verði hvernig löndin geti aukið samstarf sitt á sviði sjávarútvegsmála og að ríkisstjórnir landanna leggi niðurstöðurnar fram í sameiginlegri greiningu sem send verði til Vestnorræna ráðsins.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að hún sé lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Færeyjum ágúst 2015. Þar kemur einnig fram að Ísland, Grænland og Færeyjar séu í margvíslegu samstarfi á sviði sjávarútvegsmála, bæði á vegum opinberra aðila og aðila er tengjast atvinnulífi og sjávarútvegi í þessum löndum. Löndin ráði yfir einu stærsta fiskveiðisvæði heims en hafi ekki sameiginleg landfræðipólitísk markmið um hvernig þau nýti auðlindir hafsins. Vestnorræna ráðið telur að þessi þrjú lönd geti styrkt efnahag sinn til lengri tíma litið með því að hefja aukið samstarf, þar á meðal á sviði sjávarútvegs.

Á fundi hv. utanríkismálanefndar kom fram að Vestnorrænu löndin þrjú vinni nú þegar á mörgum sviðum sameiginlega varða sjávarútveg, til að mynda á sviði hafrannsókna, sem auka þekkingu þjóðanna. Einnig kom fram á fundum nefndarinnar að vilji er hjá íslenskum stjórnvöldum til að auka og styrkja samstarf milli landanna á þessu sviði og kom fram í máli allra þeirra er komu frá þeim ráðuneytum er ég taldi upp áðan að tillagan væri í góðu samræmi við þá vinnu sem unnin væri á vettvangi stjórnsýslunnar. Það væri mikilvægt að efla samstarfið og jafnframt ákjósanlegt og hagkvæmt.

Vestnorrænu löndin eiga það sameiginlegt að hafa mikilla hagsmuna að gæta á á sviði sjávarútvegs og sameiginleg stefna og aukið samstarf um þessi mál var af öllum þeim er komu fyrir nefndina talið styrkja samningsstöðu þeirra við önnur lönd og svæði.

Þess vegna leggur utanríkismálanefnd til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Elín Hirst var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Aðrir hv. þingmenn undirrituðu það nefndarálit sem sú sem hér stendur hefur nú kynnt, þ.e. Hanna Birna Kristjánsdóttir, Karl Garðarsson, Vilhjálmur Bjarnason, Frosti Sigurjónsson, Óttarr Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Valgerður Bjarnadóttir.