149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[16:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir góða ræðu, sérstaklega fyrri part ræðunnar, hann var mjög góður, þar sem hv. þingmaður ræddi um það þegar heimilt var að flytja inn lifandi fé á sínum tíma og þær alvarlegu afleiðingar sem það hafði fyrir okkur. Þetta var svo sannarlega þörf ábending hjá hv. þingmanni og vekur okkur svo sannarlega til umhugsunar um hvað gæti gerst hér, verði þetta frumvarp að lögum.

Hv. þingmaður nefndi að það væri óskhyggja af okkar hálfu að við gætum náð einhverri annarri niðurstöðu, þ.e. náð einhverjum samningum við Evrópusambandið um að til þessa innflutnings eða afnáms frystiskyldu þyrfti ekki að koma.

Ég er ósammála hv. þingmanni hvað þetta varðar og sérstaklega fannst mér gott þegar hv. þingmaður nefndi að sýklalyfjaónæmi hafi ekki verið til staðar 2005. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Það eru gerð mistök á þessum árum, okkar sérstöðu er ekki haldið á lofti.

En hins vegar er hér komið nýtt atriði í þennan málflutning sem ætti svo sannarlega að halda til streitu gagnvart Evrópusambandinu — um að við getum ekki orðið við því að afnema þessa frystiskyldu.

Ég vil spyrja hv. þingmann að því sem kemur fram í 114. gr. 4. tölul. Lissabon-sáttmálans, þ.e. sáttmála þjóðríkja Evrópusambandsins, þar sem kemur fram að ríkin hafi heimild til að setja sérstakar reglur, eins og í okkar tilfelli, án þess að það þurfi að samræma þær regluverki Evrópu.

Þá spyr ég hv. þingmann: Telur hv. þingmaður (Forseti hringir.) ekki að þessi tvö atriði, sýklalyfjaónæmi og þetta atriði sem ég nefndi varðandi 114. gr. Lissabon-sáttmálans, geti verið veigamikil rök í því að halda til streitu að (Forseti hringir.) falla ekki frá frystiskyldunni?

(Forseti (BHar): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörkin.)