149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður skrifaði grein í Bændablaðið 28. febrúar sl. ásamt öðrum þingmanni úr Framsóknarflokknum, hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur. Greinin var svolítið athyglisverð og þar segja hv. þingmenn, undir kafla í greininni sem hefur yfirskriftina Ekki gefast upp:

„Með samþykkt á óbreyttu frumvarpi værum við sem sjálfstæð þjóð að gefast upp fyrir reglum sem settar voru án þess að næg þekking á mögulegum áhrifum væri til staðar.“

Síðar segir:

„Með því að leyfa innflutning á hráu kjöti án þess tímafrests sem leiðir af frystiskyldunni værum við að gera vafasama tilraun með lýðheilsu þjóðarinnar.“

Ég vil spyrja hv. þingmann: Styður hv. þingmaður þetta frumvarp?

Í greininni segir:

„Okkur ber skylda til að halda uppi vörnum fyrir sérstöðu okkar ... Því þurfa íslenskir ráðamenn að ... eiga samtöl við þá sem stýra Evrópusambandinu.“

Ég spyr líka hv. þingmann: Telur hv. þingmaður að nægilega vel hafi verið staðið að þessum samræðum við embættismenn Evrópusambandsins? Þetta eru tveir punktar, ágætir og góðir punktar, í grein hv. þingmanns sem vert væri að fá greinargott svar við.

Styður hv. þingmaður frumvarpið í ljósi þessarar greinar og telur hv. þingmaður að nægjanlega vel hafi verið staðið að þessum viðræðum við Evrópusambandið til að sýna fram á sérstöðu okkar í þessu mikilvæga máli?