149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:48]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða gríðarstórt hagsmunamál allra og þess vegna ber okkur að vanda til verka. Lægsta nýgengi kampýlóbakter í Evrópu er á Íslandi. Lægsta nýgengi salmonellu er á Íslandi. Lægsta nýgengi E. coli-bakteríunnar er á Íslandi en bakterían hefur ekki fundist í íslensku búfé. Ástæðan er væntanlega sú að hér á landi hafa verið settar upp varnir sem nú á að setja til hliðar. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að matvælaöryggi og lýðheilsa eiga alltaf að vega þyngra en viðskiptahagsmunir.

Í greinargerð með frumvarpinu sem nú er til umræðu hér er tekið fram að fjármagn hafi verið veitt til Matvælastofnunar til að auka skoðun og greiningu en ekki er að finna í fjármálaáætlun fjármagn til að hún geti sinnt því eftirlitshlutverki sem henni ber. Það hlýtur að vera lykilatriði að Matvælastofnun fái nægjanlegt fjármagn til þess að standa undir því hlutverki því þannig er öryggi bæði landsmanna og dýra tryggt.

Eyfirskir kúabændur lýsa áhyggjum sínum og það má lesa í umsögn þeirra á samráðsgátt stjórnvalda þar sem þeir segja, með leyfi forseta:

„Fersku kjöti geta fylgt dýrasjúkdómar sem ógna okkar viðkvæmu dýrastofnum, sjúkdómar sem eru tiltölulega skeinulitlir erlendis geta hoggið stór skörð í okkar einangraða bústofn.“

Þetta er því stórmál. Stjórn Félags eyfirskra kúabænda segir stjórnvöld taka mikla áhættu og nefnir enn fremur að ekkert sé fjallað um hvernig eigi að koma til móts við innlenda framleiðendur eða starfsumhverfi þeirra. Félagið varar við þeirri tilslökun sem boðuð er í frumvarpinu, hún geti falið í sér óafturkræfar afleiðingar fyrir okkar viðkvæmu dýrastofna.

Á sama tíma er í Evrópu verið að setja upp varnir. Þetta er mjög mikið umhugsunarefni. Það er umhugsunarefni að ríkisstjórnin sé ekki tilbúin til að standa með íslenskum bændum og þar með íslenskri framleiðslu þar sem gæðin eru mikil og óumdeild. Vissulega er ekki hægt að ganga gegn þeim dómum sem hafa fallið en ef vilji er fyrir hendi er vel hægt að finna leiðir til að verja það sem við eigum, heilnæma matvælaframleiðslu. Því er stundum haldið fram að hlusta eigi á sérfræðinga og þá sem þekkja hvað best til og í þessu tilfelli eru það íslenskir bændur. Umsagnir þeirra við frumvarpið má ekki hunsa og það er ekki hægt að halda því fram að ekki sé hægt að bregðast við. Okkur ber að bregðast við og hlusta á varnaðarorð þeirra sem best þekkja. Það eru bændur.

Staða okkar er einstök og því ber okkur að halda uppi öllum vörnum sem við búum yfir. Sú aðstaða sem landbúnaðar hér á landi býr við er ekki jöfn ef miðað er við erlenda framleiðslu og málið nær í gegn. Sérstaða okkar hér á landi er einstök. Því er haldið fram, m.a. í umsögn Bændasamtaka Íslands, að matarsýkingum gæti fjölgað og að meiri hætta verði jafnvel á að hingað til lands berist bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Eins og ég sagði áðan þá er hætta á að innlendir búfjárstofnar smitist af sjúkdómum sem er að finna í öðrum Evrópulöndum.

Svo er spurning hvort ekki eigi að endurskoða tollasamning við Evrópusambandið. Landssamtök sauðfjárbænda leggjast gegn frumvarpinu. Það kemur fram í umsögn þeirra og þau leggja til að EES-samningurinn verði endurskoðaður. Þau segja að stjórnvöld hafi gefist upp og benda enn fremur á eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Það er skoðun samtakanna að taka verði EES-samninginn til endurskoðunar í ljósi þess að ekki sé hægt að beita ákvæði 13. gr EES-samningsins sem forsendu fyrir núverandi fyrirkomulagi er varðar innflutning á hráu, ófrosnu kjöti. Þegar EES-samningurinn var innleiddur árið 2009 var það eitt af þeim skilyrðum sem sett voru að áfram yrði bann við innflutningi á hráu ófrosnu kjöti, hráum eggjum, ógerilsneyddum mjólkurvörum og hráum ósútuðum skinnum. Samtökin telja niðurstöðu EFTA-dómsins og dóms Hæstaréttar Íslands algjöran forsendubrest á skilyrðum fyrir samþykkt samningsins og hafna alfarið þeirri uppgjöf sem felst í frumvarpinu.“

Þetta finnst mér mjög áhugaverður punktur og það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig atvinnuveganefnd mun taka á þessu grundvallaratriði.

Okkur ber að tryggja öryggi matvælaframleiðslu í landinu. Það merkir einnig að við tryggjum byggð um allt land. Það snertir atvinnuöryggi og ekki aðeins bænda eða afurðastöðva, eins og hér hefur verið nefnt, heldur eru ýmsar hliðargreinar beinlínis í hættu ef einhver hluti keðjunnar rofnar. Við verðum að sjá í gegnum fyrirætlan þeirra sem sjá sér hag í því að flytja inn ódýrar afurðir sem oft standast ekki þær gæðakröfur sem við setjum.

Matvælaframleiðsla íslensks landbúnaðar er mikilvæg framtíðaratvinnugrein sem ber að verja og tryggja vænlegt rekstrarumhverfi. Fjölbreyttur og öflugur landbúnaður er nauðsynlegur fæðuöryggi þjóðarinnar og er hornsteinn byggðar í landinu. Ég tek því undir að endurskoða þurfi tollasamninga við Evrópusambandið með það að markmiði að tryggja stöðu innlendrar framleiðslu sem oft keppir við niðurgreidda vöru, eins og ég sagði fyrr, sem er framleidd við óviðunandi skilyrði.

Eftir umfjöllun hér fer málið til atvinnuveganefndar og það er ljóst að hennar bíður mikið og stórt verk. Það verður hreinlega að vinna málið þannig áfram að hér verði áfram heilnæm matvælaframleiðsla og það án allrar áhættu.