149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[20:21]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með umræðum um þetta ágæta mál hér í dag. Ef maður á að segja eins og er: Ja, hvað kallar maður þessa pólitík sem hér er flutt? Þetta er standandi hræðsluáróður um að hér sé stórkostleg vá fyrir dyrum ef við svo lítið sem virðum þær samningsskuldbindingar sem við höfum undirgengist í samningi okkar um Evrópska efnahagssvæðið um innflutning á landbúnaðarafurðum. Við erum margdæmd í málinu. Sú frystiskylda sem við vorum með á innfluttu kjöti taldist ekki málefnaleg sjúkdómavörn, enda hefur verið sýnt fram á, m.a. af sérfræðingum landbúnaðarráðuneytisins hér, að hún hefur sáralítið að segja gegn þeim sjúkdómum sem helst er um rætt, eins og fjölónæmum bakteríum. Hún hefur bara ekkert að segja í þeim efnum.

Þessi orðræða á miklu meira skylt við pólitík sem er að verða allt of algeng, bæði hér á landi og annars staðar, pólitík hræðslunnar. Pólitíkin: „Við gegn þeim“. Að allt sem frá „þeim“ kemur sé vont og hættulegt og beri að forðast með öllum tiltækum ráðum en allt sem „við“ gerum, í einhverri svona fortíðarþrá, sé algjörlega frábært og yfir allt og allan vafa hafið.

Þessi umræða — þá er ég ekki bara að tala um einhverjar landbúnaðarafurðir — er alveg gríðarlega óheilbrigð í lýðræðislegum þjóðfélögum í dag. Hættuleg, mundi ég segja. Þetta heitir réttu nafni lýðskrum, sem m.a. Miðflokkurinn hefur stundað hér hraustlega í dag.

Auðvitað eigum við að gæta með öllum tiltækum ráðum, með þeim lagalegu úrræðum sem við höfum, að heilnæmi þeirrar matvöru sem er flutt hér inn. Við eigum að sinna því eftirliti sem við getum sinnt. En við þurfum líka að átta okkur á því að við höfum undirgengist í alþjóðasamningum okkar að virða matvælaeftirlit aðildarríkja Evrópusambandsins, sem starfa eftir sömu reglum og við gerum sjálf hér.

Það er þessi gagnkvæma virðing sem er undirstaða frjálsra viðskipta milli landa, ekki bara með landbúnaðarafurðir til landsins, heldur ekki síður með okkar eigin landbúnaðarafurðir inn á Evrópumarkað — og það sem mestu máli skiptir auðvitað fyrir okkar hagsmuni, sjávarafurðir inn á Evrópumarkað. Það er kjarni frjálsra viðskipta í gegnum aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu að við virðum það gæðaeftirlit sem við sinnum hér og það gæðaeftirlit sem sinnt er innan aðildarríkja Evrópusambandsins sem við eigum viðskipti við — að við virðum reglur og fyrirkomulag hvert annars til að hægt sé að tryggja snurðulaus, tafarlaus viðskipti milli landa.

Þegar þingmenn hér í þessum sal vega að grunnstoðum Evrópusamstarfsins með þessum hætti, grunnstoðum viðskipta innan Evrópu með þessum hætti, að við eigum að draga í efa það matvælaeftirlit sem við sjálf störfum eftir og draga í efa hæfni þeirra þjóða sem við eigum viðskipti við til þess að sinna því, erum við farin að vega að frjálsum viðskiptum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá erum við komin inn á þá braut, sem kom raunar ágætlega fram í ræðu hv. þm. Bergþórs Ólasonar, að það sem raunverulega liggur hér undir er ekkert annað en viljinn til þess að reisa hér tæknilegar viðskiptahindranir með landbúnaðarafurðir, sem eru ólöglegar samkvæmt þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist í EES-samningnum. Það er einmitt kjarni þeirra fríverslunarsamninga sem við gerum, ekki hvað síst samningsins um Evrópska efnahagssvæðið: Að við séum ekki að reisa ólögmætar, tæknilegar viðskiptahindranir til verndar vörum hér heima fyrir. Um það snýst kjarni þessa máls.

Þetta er, þegar öllu er á botninn hvolft, spurningin um hvort þingmenn hér í þessum sal séu hlynntir þeim viðskiptasamningum sem við höfum gert, tilbúnir að vinna í einu og öllu eftir þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist. Þar er ekkert verið að krefjast þess að við sýnum einhvern undirlægjuhátt eða gætum ekki okkar eigin hagsmuna. Að sjálfsögðu gerum við það. En við virðum þá samninga sem við höfum gert. Við störfum eftir lögum.

Það er alveg ótrúleg léttúð sem er hér í umræðunni um að láta dæma okkur til hins og þessa. Hér er talað um að við eigum með öllum tiltækum ráðum að tefja gildistöku þessa frumvarps, í einhverjum óljósum tilgangi reyndar. Því er fleygt í verslunina að segja: Kæri hún okkur bara ef hún kýs að kæra okkur. Það komi þá bara í ljós hvort, eins og einhver hv. þingmaður orðaði það í dag, verslunin ætli að þrífast á lögsóknum við íslenska ríkið.

Það eru auðvitað hábölvað hér í þessum sal að þingmenn tali með þessum hætti, að vísvitandi sé farið út í einhverja tafaleiki og flækjur og talað um lögbrot undir rós hér í þessum sal og sagt berum orðum úr þessum stól: Farið þið þá bara í mál.

Þetta er auðvitað ekki boðlegur málflutningur.

En þetta eru auðvitað einkenni þessarar pólitíkur sem við sjáum meira og meira af í öllum hinum vestræna heimi, þessa þjóðernispopúlisma, þessa lýðskrums. Það er vaxandi tilhneiging til einangrunarhyggju, til verndarhyggju. Það er ábyrgðarlaust í þjóðfélagi eins og á Íslandi. Ég hygg að það séu fá lönd sem eiga jafn mikið undir frjálsum alþjóðaviðskiptum og við.

Og ég held að sé enginn samningur sem við höfum gert sem fullvalda þjóð, hvorki fyrr né síðar, sem er mikilvægari fyrir okkur heldur en einmitt samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Það er ótrúlegt ábyrgðarleysi af hálfu þingmanna hér í þessum sal að tala um þennan samning af jafn mikilli léttúð og hér hefur verið gert í umræðunni í dag og í kvöld. Það er í raun og veru til skammar að horfa upp á þetta. Þar er að mínu viti verið að hætta miklu ríkari hagsmunum en hagsmunum landbúnaðarins gagnvart innflutningi og það eru hagsmunir sjávarútvegsins gagnvart útflutningi sjávarafurða inn á Evrópska efnahagssvæðið.

Það er ágætt bara að hafa það í huga að við flytjum héðan út sjávarafurðir fyrir vel á þriðja hundrað milljarða á ári, að stærstum hluta inn á þennan mikilvægasta markað okkar. Ég held að sé gott að hafa það í huga.

Síðan auðvitað finnst mér dálítið hjákátlegt, í raun og veru, hversu litla trú þeir þingmenn sem stunda þennan málflutning hafa á gæðum íslenskra landbúnaðarafurða. Við höfum séð og fengið reynsluna í gegnum grænmetisræktina af frjálsum innflutningi landbúnaðarvara. Og við höfum séð íslenska neytendur í verki velja íslensku vöruna umfram þá innfluttu þegar sú íslenska býðst. Við höfum líka séð ávinning íslenskra neytenda af þeirri samkeppni sem frjáls innflutningur á grænmeti færði. Grænmeti hefur hækkað langtum minna en aðrar landbúnaðarafurðir frá því sú tollvernd var afnumin hér fyrir 15 árum, raunar minna en vísitala neysluverðs á sama tíma, talsvert minna.

Þetta er auðvitað kostur samkeppninnar. Þetta er það sem við sækjumst eftir, að geta hvort tveggja í senn varið hagsmuni innlends landbúnaðar og innlendrar landbúnaðarframleiðslu með beinum stuðningi við greinina en leyft neytendum líka að njóta góðs af kostum samkeppninnar með hagkvæmari verðlagningu viðkomandi vara en ella.

Ég er alveg sannfærður um að þó svo að þessum breytingum sem hér er verið að ræða muni augljóslega fylgja aukinn innflutningur landbúnaðarafurða munu Íslendingar velja innlenda landbúnaðarvöru fram yfir þá innfluttu. Ég mun gera það sjálfur. Ég kýs miklu fremur íslenskt lambakjöt en innflutt og ber mig eftir því að kaupa innlenda framleiðslu almennt, sé hún í boði og á sæmilega sambærilegum kjörum. En ég er alveg tilbúinn að greiða hærra verð. Ég held að íslenskir bændur muni standa sig mjög vel í samkeppni við innflutning, með öflugri vöruþróun, með áframhaldandi gæðaframleiðslu eins og íslenskur landbúnaður hefur verið með, og auðvitað með því að tryggja rétta upprunamerkingu, sem skiptir neytendur langmestu máli þegar upp er staðið.

Í stuttu máli: Þetta er gott mál. Við erum loksins að uppfylla samningsskyldur okkar gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu, að láta af þessari síbrotastarfsemi gagnvart samningnum sem við höfum verið að stunda í þessu máli. Við verðum að gera það með réttum hætti og um leið að tryggja, með auknu eftirliti, að íslenskum neytendum stafi ekki hætta af þeirri þróun. Það væri ágætur siður, og var það hér í eina tíð hjá okkur sem þjóð, að við legðum mikið upp úr því að standa við þá samninga sem við gerðum, að orð okkar stæðu, að við værum traustsins verð en reyndum ekki af ásetningi að brjóta þær skuldbindingar sem við sjálf og sjálfviljug sem fullvalda þjóð höfum undirgengist.

Það fylgir nefnilega sú ábyrgð fullvalda þjóðum. Þegar við gerum samninga stöndum við við okkar hlut — því að við ætlumst að sjálfsögðu til að aðrar þjóðir standi við sínar skuldbindingar gagnvart okkur.